Svínvetningabraut aftast á merinni í tengivegaáætlun

Svínvetningabraut. MYND: ÓAB
Svínvetningabraut. MYND: ÓAB

Innviðaráðuneytið hefur svarað erindi Húnabyggðar um stærstu samgönguverkefni Vegagerðarinnar í sveitarfélaginu en þau eru Vatnsdalsvegur, Skagavegur og Svínvetningabraut. Í frétt í Húnahorninu segir að samkvæmt ráðuneytinu sé Svínvetningabraut öftust í röðinni í tengivegaáætlun Vegagerðarinnar á norðursvæði. Á undan í röðinni eru Svarfaðardalsvegur, Sæmundarhlíðar, Hegranesvegur og Víðidalsvegur. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Svínvetningabraut muni hefjast innan 4-5 ára.

Byggðarráð Húnabyggðar fjallaði um svör ráðuneytisins og telur ótækt að Svínvetningabraut sé númer fimm í röðinni af vegum á norðursvæði. „Svínvetningabraut er varaleið fyrir þjóðveg 1 ásamt því að loforð um vegabætur á Svínvetningabraut eru orðin meira en 30 ára gömul. Þá spilar Svínvetningabraut lykilhlutverk í uppbyggingu byggðarlínu HH3 sem nú á að ráðast í og er byggðarlínan meðfram Svínvetningabraut fyrsti áfangi þess verkefnis,“ segir í fundargerð ráðsins.

Byggðarráðið leggur áherslu á að svörin séu óskýr og gefi tilefni til þess að efast um að verkefnin verði sannarlega sett af stað á tilsettum tíma. Ráðið leggur þó traust á að loforð ráðuneytisins um Vatnsdalsveg og Skagaveg standi.

Hvað Skagaveg varðar þá er vegurinn í hönnun og undirbúningi. Útboð tefst mögulega um nokkra mánuði þar sem verið er að skoða fýsileika þess að færa veglínu á ákveðnum kafla. Slíkt kallar á auknar jarðvegsrannsóknir og lengir því undirbúningstímann. Þá gefa svör innviðaráðuneytisins vonir til þess að framkvæmdir á Vatnsdalsvegi verði umfangsmeiri en ráð var gert fyrir. Vegagerðin ætlar að nýta svigrúm sem hagstætt tilboð í verkefnið gaf til þess að stækka það, þannig að fjármagnið nýtist sem best.

Heimild: Húni.is

Fleiri fréttir