Það er búið að fylla á tankinn
Ef einhvern vantar lesefni yfir helgina (eða í framtíðinni) þá tilkynnist það hér með að búið er að fylla á Feykistankinn dágóðum skammti af Rabb-a-babbi og Tón-lyst. Um er að ræða efni sem birst hefur í pappírsútgáfu Feykis síðasta eitt og hálfa árið eða svo og gæti mögulega glatt einhverjar leitandi sálir.
Meðal þeirra sem svara Rabbinu er Liverpool-stuðningsmaðurinn Björn Ingi, Leifur í Sólheimum, Sveinbjörg Péturs á Hvammstanga, fyrrverandi þingmaðurinn Eva Pandora, Róbert Daníel á Blönduósi og Ástrós á Skagaströnd.
Landsfrægir og minna frægir tónlistarspekingar svara fyrir sig í Tón-lystinni. Þar má nefna gufupönkarann Ingimar Odds sem söng í denn um stælta stráka, Ágúst Ingi viðurkennir að Ef ég nenni geti eyðilagt fyrir honum listina á malti og appelsíni, Svavar Knútur segist ekki haf vit á stuðtónlist, Hreindís Ylva gengst við því að hafa skælt yfir lögum Carrie Underwood og Nökkvi Elíasar táraðist af gleði þegar Lordi sigraði Júróvisjón.
Það er síðan á túdú-lista umsjónarmanns Tón-lystarinnar að lífga enn frekar upp á efniviðinn með því að tengja YouTube-myndbönd við svörin þannig að forvitnari lesendur geti með auðveldum hætti nálgast hljóð- og sjóndæmi. Eitthvað er um slíkt við það efni sem var fyrir á Feyki og þeirri vinnu verður haldið áfram – eins og pólítíkusarnir segja.
Já. Það ætti enginn að verða verri manneskja við að lesa Rabbið eða Tón-lystina. Það er síðan spurning hvort það sé eitthvað sérstaklega mannbætandi. Það er þó ljóst að enginn veit fyrr en reynt hefur.
Góða skemmtun!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.