Þemadagsfréttir
Nú hefur Feykir.is fengið sendan fréttapistil frá Árskóla í tilefni Þemadaga.
Í dag hófust þemadagar í Árskóla. Nemendum yngsta stigs, miðstigs og unglingastigs var blandað saman í hópa innan hvers stigs. Hver hópur fór á 2 stöðvar og mun fara á hinar 4 næstu tvo daga.
Það var ýmislegt skemmtilegt í boði fyrir krakkana. Þeir sem fara í jóga og spil eru í tvískiptum hópum. Á unglingastigi spilar annar hópurinn vist eftir að hafa fengið upprifjun á reglunum. Þegar vantar spilafélaga grípa kennararnir í spilin og hefur heyrst að Bergmann sé fremur tapsár!! Á miðstigi eru ýmis spil í boði en vinsælast hefur verið að spila sjóorustu, tefla og leika sér með kubbaspil sem heitir Jenga. Í jóganu á báðum stigum koma krakkarnir sér vel fyrir við kertaljós og ljúfa tónlist og æfa hina fornu list. Vel hefur gengið að fá krakkana til að njóta slökunarinnar og hefur nokkrum tekist að sofna.
Tónlistarhópurinn blandaði saman mið- og unglingastigi og gafst það mjög vel. Byrjað var á að syngja saman lögin; krummi krunkar úti, meistari Jakob og skín í rauðar skotthúfur. Eftir það voru taktæfingar með ýmsum ásláttarhljóðfærum og hristum. Nemendur horfðu svo á áhrifamikinn bút úr Hringadróttinssögu þar sem ýmis tilbrigði tónlistar leika stórt hlutverk. Ef tími vinnst til í hópunum er farið lítillega í tónlistarstefnur og slökun við tónlist úr smiðju Guðjóns Bergmanns.
Í inniíþróttahóp á miðstigi er farið í ratleik. Í leiknum eru ýmiss konar þrautir t.d. hlaup, vítaskot á körfu, stafarugl, gjafa innpökkun og fleira. Á miðstigi er einnig hópur sem gerir hollusturétti. Í tilefni jóla var ákveðið að kynna fyrir nemendum hvernig hægt er að útbúa hollt konfekt, hollustudrykki og fleira. Nemendur gæddu sér á veisluföngunum í lok hvers tíma og fengu einnig að taka konfekt með sér heim til að gefa fjölskyldunni að smakka. Krakkarnir voru duglegir og áhugasamir og nemendur og starfsfólk skólans skemmtu sér vel.
Nemendur á miðstigi fóru í ratleik um iðnaðarhverfið. Iðnaðarhverfið var valið á þeim forsendum að nemendur þyrftu sem minnst að fara yfir stórar umferðargötur. Valin voru 11 fyrirtæki sem nemendur heimsóttu samkvæmt vísbendingum í ákveðinni röð. Í hverju fyrirtæki átti að fá svör við spurningum ásamt því að leysa þrautir á ákveðnum stöðum, til dæmis negla í viðardrumba, flokka rusl, brjóta saman þvott og fleira skemmtilegt. Í ratleiknum var markmiðið að safna saman stöfum sem síðan áttu að mynda lausnarorð sem þau leystu að leik loknum. Einnig var safnað stigum eftir því hversu fáar vísbendingar þau þurftu til þess að finna næsta fyrirtæki. Fyrsti dagurinn gekk snurðulaust fyrir sig og ekki var hægt að sjá að nemendum né starfsmönnum leiddist leikurinn. Vátryggingafélag Íslands gaf hverjum nemanda endurskynsmerki og viljum við þakka þeim fyrir það, ásamt því að við viljum koma þakklæti á framfæri til allra fyrirtækjanna sem heimsótt voru.
Í útileikjahópi á miðstigi er farið í ýmiskonar leiki og stjórnast nokkuð af veðri hvaða leikir verða fyrir valinu hverju sinni. Lögð er áhersla á gamla og góða leiki, eins og stórfiskaleik, punkt og krónu, eitur í flösku og fleiri viðlíka, en einnig er farið í fótbolta og aðra boltaleiki. Allir nemendur fá að reyna sig í teygjubyssu skotfimi og eru skotfærin baunir og sykurmolar og ættu því ekki að verða neinum að tjóni. Jafnframt eru þoturassar tilbúnir til notkunar ef við verðum svo heppin að fá snjó í Grænuklaufina. Reynt er eftir fremsta megni að blanda saman leikjum sem krefjast mikillar hreyfingar og annarra sem eru rólegri. Þannig er reynt að koma til móts við alla og halda jafnvægi í dagskránni.
Í útivistarhópnum á unglingasstigi er farið í gönguferð. Haldið er frá skólanum suður úr bænum, síðan niður gamla Sjávarborgarveginn og beygt af honum inn á reiðveg sem liggur að suðvesturhorni Tjarnartjarnarinnar. Þaðan er gengið austur með tjörninni sunnanverðri, austur fyrir hana og vestur með henni að norðanverðu. Við reiðhöllina Svaðastaði er komið inn á annan reiðveg sem liggur að Sauðánni og upp með henni, að þjóðveginum. Þegar þangað er komið er stefnan tekin á iðnaðarhverfið, gengið meðfram því og hringnum lokað við Árskóla. Í morgun voru farnar tvær slíkar ferðir.
Hópur 1 gekk þessa leið í niðamyrkri en enginn reyndist sérlega náttblindur, allir hins vegar bærilega fótvissir og skiluðu sér því heilu og höldnu á leiðarenda. Hópur 2 hélt síðan af stað sömu leið upp úr kl. 10:00. Þá mátti heita að orðið væri bjart en bætt hafði í vestanáttina og á bakaleiðinni var drjúgur mótbyr og talsverð rigning að auki. Göngugarpar létu það þó ekki aftra sér, heldur hölluðu sér upp í vindinn, settu í herðarnar og örkuðu á áfangastað.
Á unglingastigi er einn hópur sem fær að prófa tækjasal, glímu og fingraleikfimi. Í glímunni er Kári með kynningu á íþróttinni og útbúnaðinum (galli og belti). Nemendum eru kynntar þær reglur sem gilda inní tækjasalnum og íþróttahúsinu. Síðan er farið í tækjasal í þrekhring og íþróttahús þar sem krökkunum er leyft að prófa glímutökin. Þeir nemendur sem þorðu að koma við hvorn annan tóku vel á. Þreksalur gekk mjög vel og krakkarnir púluðu og svitnuðu. Í fingraleikfiminni er unnið í ýmis konar jólaföndri í textílstofu og flestum fannst mjög gaman og fundu eitthvað við sitt hæfi að gera.
Farið var með hóp nemenda unglingastigs í Sveinsbúð sem er aðstaða Björgunarsveitar Skagafjarðar. Byrjað var á að kynna almenn störf og verkefni björgunarsveita á landinu. Síðan var kynntur ungliðahópur sem hefur verið starfræktur um nokkurt skeið hér í bæ og heitir sá félagsskapur Trölli. Þátttakendur í Trölla eru á aldrinum 14 – 17 ára, þ.e. 9., 10. og fyrsti bekkur í fjölbraut. Síðan var farið inní aðstöðuna en þar er búið að búa til klifurvegg og fengu allir sem vildu að prófa hann. Sumir kusu að horfa á og skoða tæki og tól, aðrir gerðu sér lítið fyrir og fóru uppá topp á klifurveggnum, ekki bara einu sinni heldur oftar. Nemendur og starfsmenn skemmtu sér konunglega.
Í þemaviku í skólahúsinu við Freyjugötu er nemendum skipt í sex aldursblandaða hópa og fara þeir á sex stöðvar. Hóparnir eru útivist, hollt og gott, leikir í íþróttasal, tannhirða, leikræn tjáning og tónlist.
Í hópnum „hollt og gott“ er krökkunum skipt í þrennt. Einn hópurinn býr til ostapinna og notar til þess vínber, mandarínur og ost að sjálfsögðu. Annar hópur gerir heilsudrykk en hann er gerður á þann hátt að skyr, bananar og perur eru sett í blandara, einnig smá mjólk og nokkrir klakar.
Þriðji hópurinn sker niður grænmeti og gerir ídýfu sem búin er til úr sýrðum rjóma, súrmjólk og púrrulauksdufti. Krakkarnir borða og/eða drekka afraksturinn af bestu lyst.
Útivistarhópurinn fer í heimsókn á lögreglustöðina,fær endurskinsmerki og skoðar stöðina. Síðan er farið í leiki á Flæðunum.
Leikir í íþróttasal – farið er í nokkra leiki s.s. ásaleikur, eyjaleikur, hlaupa í skarðið og ýmsar þrautir. Í lokin er slökun í nokkrar mínútur.
Leikræn tjáning – nemendur byrja á því að kynna sig. Síðan draga nemendur miða og leika það sem stendur á honum. Í lokin er þeim skipt upp í sjö hópa og æfa lítið leikrit eftir sögu.
Tannhirða – horft er á brúðuleikhús um Karíus og Baktus. Síðan föndra nemendur „tennur“ og samstæðuspil, búa til gogg og fá lítið hefti með allskyns verkefnum.
Tónlist – nemendur fara í ýmsa tónlistarleiki og syngja.