Þorleifur Ingólfsson (Smilli) - Minning

Þorleifur Ingólfsson sjómaður og bóndi á Þorbjargarstöðum á Skaga, fæddist í Reykjavík 21. febrúar 1950. Hann lést á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans 17. janúar. Foreldrar hans voru Ingólfur Guðmundsson bifvélavirki, f. 19.4. 1929, d. 16.6. 1991, og Fjóla Þorleifsdóttir ljósmóðir, f. 20.8. 1928, d. 6.11. 2007. Bræður Þorleifs eru Guðmundur Örn, f. 19.10. 1952 og Jóhann Helgi f. 3.7. 1960.

Þorleifur kvæntist 9. október 1975 Brynju Ólafsdóttur kennara, f. 27.10. 1951. Foreldrar hennar voru Ólafur Ingi Þórðarson mjólkurfræðingur í Borgarnesi og kona hans Guðbjörg Ásmundsdóttir. Börn Þorleifs og Brynju eru: 1) Kristín, f. 10.11. 1969, gift Finni Daníelssyni, f. 8.6. 1968. Börn þeirra eru Aron Elvar, f. 28.8. 1997 og Sigrún Freygerður, f. 24.2. 2006. 2) Ingólfur Áki, f. 24.7. 1975, kvæntur Moniku Kapanke, f. 30.3. 1974. Börn þeirra eru Karen Dís, f. 27.5. 2001 og Kristian Þorleifur, f. 11.11. 2005. 3) Guðmundur Haukur, f. 28.4. 1980, kvæntur Guðrúnu Sigríði Grétarsdóttur, f. 4.1. 1981. Börn þeirra eru Kristófer Heiðar, f. 6.4. 2001, Friðrik Haukur, f. 5.7. 2014 og Pálína Kristín, f. 8.12. 2016. 

Þorleifur (Smilli) fór ungur til sjós eða um 10 ára aldur og upp frá því átti sjórinn hug hans og hjarta. Hann aflaði sinna fyrstu sjómannslauna sumarið 1960 og stundaði sjóinn samtals í 62 ár, til lengri eða skemmri tíma. Hann var á fjölmörgum skipum um ævina og fylgdi gjarnan Guðmundi Árnasyni skipstjóra, en seinni árin var hann mest á eigin báti. Árið 1976 keyptu Smilli og Brynja Þorbjargarstaði og starfræktu á heimili sínu Barnaskóla Skefilsstaðahrepps um árabil. Á sama tíma eignuðust þau fyrsta bátinn, Þorbjörgu, og hófu eigin útgerð. Samhliða stunduðu þau sauðfjárbúskap sem þó var ætíð hliðarbúgrein við útgerðina og hættu þau búskap fyrir allmörgum árum. Eftir að Þorbjörgin lauk sínu hlutverki hafa allir bátar í eigu Smilla borið nafnið Fannar og var hann afar farsæll sjómaður. Áhugamálin voru sjórinn og sveitin, en síðustu árin bættust við Kanaríferðir og trjárækt. Smilli var alla tíð heilsuhraustur og því var það öllum mikið áfall þegar hann greindist með bráðahvítblæði þann 9. janúar sl. Rúmri viku síðar var ævi hans öll.

Þorleifur verður jarðsunginn frá Sauðárkrókskirkju í dag, föstudaginn 3. febrúar, og hefst athöfnin klukkan 14.

Mín fyrstu ár man ég eftir pabba sem nokkuð ströngum en þó skemmtilegum. Þrátt fyrir að vera laus við allan íþróttaáhuga, var hann mikill keppnismaður og skapið eftir því. Pabbi minn þurfti alltaf að vera að gera eitthvað. Því á ég ekki margar minningar um hann við einhvern leik. Þó kom það auðvitað fyrir, eins og skotkeppni í körfubolta í skemmunni, en þó ekki fyrr en búið var að gefa kindunum. Veiðiferðir í fjöruna með okkur bræðurna. Það var ekki skrýtið. Hann var jú mikill fiskimaður og hafið átti hans huga að miklu leyti.

Ekki fór ég samt á mis við pabba í bernsku, þótt lítið væri um æskulýðsstörf. Það er jú kosturinn við að alast upp í sveit. Maður er alltaf með. Um tíu til tólf ára aldurinn vissi ég full mikið um girðingavinnu og allt um smalamennsku. En fyrir stritið borgaði pabbi samt alltaf vel og kenndi manni að ekkert kemur af sjálfu sér. Snemma byrjaði ég að róa með honum á bátnum hans, Fannari og má segja að hann hafi tekið mig um borð í staðinn fyrir Áka bróður minn sem þá var orðinn full skólaður sjómaður.

Á sjónum var pabbi í essinu sínu. Söng með stríðnisglotti „Mér finnst ég varla vera nema einn og hálfur maður“ við lag Villa Vill, á meðan ég ældi út fyrir borðstokkinn. Ég get núna brosað yfir því hvað honum blöskraði hvað ég var kulsækinn og pjattaður. „Þurfti vettlinga í allt!“ Það var algjör andstæða við hann. Sagði hann eitthvað á þá leið að ef manni væri kalt þá ætti maður að vinna hraðar. Kannski ekki skrýtið þar sem hann var alinn upp að hluta á bátum og síðutogurum. Pjatt var ekki til í hans orðabók og smurolíu var aldrei hægt að nota nóg af. Eitt af hans mottóum var að fara vel með það sem hann átti eða notaði. Enda entust hans tæki og tól áratugum saman. Hvort sem var úr búskap eða útgerð. „Það skiptir ekki máli hvernig hlutirnir líta út. Bara að þeir séu í lagi.“

Mín mesta mannraun og ein af mínum eftirminnilegri minningum er sumarið sem ég varð 16 ára. Þegar við sigldum á gamla bátnum hans til Bolungarvíkur og gerðum þaðan út á handfæri í þrjár vikur. Rérum norður fyrir Hornstrandir og fiskuðum vel. Lágum oft við akkeri yfir næturnar inni á hinum og þessum Horn- og Hælavíkum. Borðuðum hinar ýmsu kræsingar úr alls konar niðursuðudósum. Toppurinn var þó þegar við suðum pylsurnar bundnir við bryggjuna í Bolungarvík og pabbi lagði hvítan dúk á aðgerðarborðið úti á dekki og við sátum við það í sólinni með pappadiska. Við höfum reglulega rifjað upp og hlegið að þessari Michelin upplifun okkar.

Nægjusemin var mikil dyggð hjá pabba, en næstu sumur voru þó leigð herbergi. Það verður að viðurkennast að minningin um volkið verður betri eftir því sem lengra líður frá. Samstarf okkar feðga hefur gengið afar vel. Svo vel að fyrir nokkrum árum fékk ég að kaupa mig inn í fjöreggið hans, útgerðina. Mikið höfum við rætt á öllum þessum árum, en suma daga ræddum við lítið eins og gengur. Við þurftum þess ekki. Unnum bara sem einn maður.

Já, vaninn er mikill um borð í trillubát. Eitt sinn sagði hann mér að hann hefði „ræst“ mig þegar við nálguðumst höfn eina nóttina. Hefði kallað nafnið mitt tvisvar í myrkrinu. Þá mundi hann að hann hefði farið einn í róðurinn. Öryggismál voru pabba nefnilega nokkuð hugleikin. Kannski ekki vottanir og staðlar. En að hlutirnir væru í lagi og „að menn væru ekki að þvælast einir of lengi og vaka sig vitlausa“.

Þegar ég var tvítugur, ný flosnaður upp úr námi, hafði ég mig upp í það að sækja um á togara. Bankaði upp á hjá einum skipstjóranum í bænum. Spurningarnar sem ég fékk voru eitthvað á þessa leið. „Hvað heitirðu og hverra manna ertu?“ Tveimur vikum síðar fékk ég svo símtalið. Einhverjar upplýsingar voru gefnar, en samtalið endaði á „Vertu svo bara jafn duglegur og hann pabbi þinn“. Um borð fór ég og var að mér fannst furðu vel tekið af þessum gömlu sjóhundum sem ég þekkti ekki neitt. Næstu mánuði gat ég varla hringt heim eða skroppið í frí án þess að einhver bæði að heilsa Smilla. En það var hann alltaf kallaður af vinnufélögum og vinum.

Eftir því sem árin færðust yfir róaðist pabbi og varð blíðari á manninn. Hætti að reita hár sitt þó við misstum af einum og einum sjóviðrisdegi. Vildi bara fá barnabörnin í heimsókn. Eða fór bara í göngutúr með mömmu um jörðina að líta eftir trjánum sem þau hafa plantað. En landgræðsla hefur verið dulið áhugamál hjá foreldrum mínum og hafa þau í gegnum árin breytt flestum gráum melum á Þorbjargarstöðum í grænar grundir.

Síðustu sumur höfum við afkomendurnir komið saman, plantað fleiri trjám með gömlu hjónunum og haft gaman. Barnabörnin hafa kynnst æskuslóðunum okkar og mesta sportið var að sitja í traktornum með afa. Best fannst þó pabba ef hægt væri að gera þó ekki nema smá gagn í leiðinni. Hvort sem það var að Kristín systir fjarlægði nokkrar gamlar girðingar með honum, eða við Áki bróðir værum sendir upp á eitthvert skemmuþakið að laga eitthvað. „Svona úr því við værum nú öll komin.“

Síðustu vetur hafa mamma og pabbi stytt skammdegið og eytt dágóðum tíma á Kanarí. Kynnst mörgu góðu fólki og unað þar vel. Pabbi var þó harður á því að af íslensku sumri vildi hann alls ekki missa. Því í raun var hann mikið náttúrubarn þótt hann veldi frekar að horfa á hana úr vélknúnu tæki en að ganga um hana. Okkar besti tími var að sigla heim að vori eftir góðan róður og sjá snjóinn hopa úr fjöllunum og hlíðarnar verða grænni dag frá degi.

Svona man ég elsku pabba.
Hvíldu í friði vinur minn.

Guðmundur Haukur Þorleifsson 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir