Þuríður Harpa hyggur á framboð til formanns ÖBÍ

Í nýjasta Feyki er viðtal við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Nýprents á Sauðárkróki, en þar kemur fram að hún hyggi á framboð til formanns Öryrkjabandalag Íslands en kosning um það embætti fer fram í haust. Eins og staðan er nú er hún sú eina sem boðað hefur framboð til embættisins.

„Það að ég bjóði mig fram til formanns ÖBÍ á sér nokkurra ára aðdraganda en fyrst var þetta orðað við mig fyrir um fjórum árum. Mér fannst það þá mjög fjarstæðukennd hugmynd. En svo var aftur þrýst á mig fyrir tveimur árum og svo núna. Ég hef því haft góðan tíma til að skoða málið, vega þetta og meta, og ákvað nú að stíga út fyrir þægindaramman, taka stökkið og fara í framboð.,“ segir Þuríður sem undanfarin tíu ár hefur með beinum og óbeinum hætti unnið að verkefnum tengdum öryrkjum og öðru fötluðu fólki. Sjálf lamaðist hún fyrir rúmum áratug í hestaslysi og olli fötlunin hennar algjörri umvendingu í hennar lífi en jafnframt opnaði augu hennar fyrir þeim veruleika hve öryrkjar, sem þjóðfélagshópur, ber verulega skarðan hlut frá borði. Við umskiptin í eigin lífi, segist Þuríður ekki hafa komist hjá því að kynnast hvað það er í raun að vera fatlaður og hve kerfið er gloppótt og götin stór.

Þá er sagt frá því á Mbl.is að Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, ætli ekki að sitja þriðja tímabilið og myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs á aðalfundi Öryrkjabandalagsins í næsta mánuði.

Fleiri fréttir