Tindastóll mætir Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar

Tindastóll sigraði Skallagrím í Borgarnesi í kvöld nokkuð örugglega þá aldrei hafi verið mikill munur á liðunum. Lokatölur voru 91-101. Þetta var síðasti leikdagur í Dominos-deildinni og ljóst að honum loknum að Tindastóll mætir Þórsurum úr Þorlákshöfn í úrslitakeppninni en fyrsti leikdagur úrslitakeppninnar er 19. mars.

Stólarnir hafa örugglega verið sáttir við að losna við að mæta Grindvíkingum en Grindvíkingar enduðu í áttunda sæti með jafn mörg stig og Þór og Keflavík en verstu stöðuna í innbyrðisviðureignum. Það eru deildarmeistarar KR sem mæta Grindvíkingum. Ljóst er að það er enginn slagur unninn fyrirfram í úrslitakeppninni og hart verður barist.

Með sigrinum í kvöld bættu Tindastólsmenn besta árangur sinn í 12 liða keppni í efstu deild sem er glæsileg frammistaða hjá nýliðum í deildinni.

Það var ekki mikið undir í leiknum í kvöld; Stólarnir öruggir með annað sætið og lið Skallagríms þegar fallið í 1. deild. Tindastóll náði yfirhöndinni undir lok fyrsta leikhluta en heimamenn voru aldrei langt undan, munurinn yfirleitt tvö til fimm stig. Í hálfleik var staðan 52-56 en Tindastólsmenn byrjuðu síðari hálfleik vel og voru komnir með tólf stiga forystu, 54-66, eftir tvær mínútur. Skallagrímsmenn sýndu góða baráttu og jöfnuðu leikinn 68-68 á skömmum tíma. Fimm stigum munaði fyrir fjórða fjórðung og Stólarnir voru fljótir að auka forskotið og unnu að lokum nokkuð öruggan tíu stiga sigur.

Atkvæðamestu í liði Tindastóls í kvöld var Helgi Viggós með 22 stig og 10 fráköst. Þá skilaði Lewis 17 stigum og Flake var með 16 stig og 10 fráköst. Í lið heimamanna var Páll Axel seigur með 30 stig, Maggi Gunn með 19 og Sigtryggur Bjössa og Guðrúnar með 15 en Borgnesingar léku án kana en sá var í banni.

Nánari upplýsingar um leikina í úrslitakeppninni ættu að vera klárar hjá KKÍ á morgun.

Stig Tindastóls: Helgi Viggós 22, Lewis 17, Flake 16, Dempsey 13, Helgi Margeirs 11, Svavar 10, Finnbogi 5, Viðar 4 og Ingvi 3.

Fleiri fréttir