Tók á móti ríflega 40 þúsund gestum
Á meðal verkefna síðasta árs hjá Byggðasafni Skagfirðinga er fornleifauppgröftur á 11. aldar skála á Hamri i Hegranesi en einnig var skipt út sýningunni Gersemar og þarfaþing, í sal Minjahússins á Sauðárkróki, fyrir geymslusýninguna Hitt og þetta úr geymslunni. Þetta kemur fram á vef safnsins þar sem stiklað er á helstu verkefnum ársins 2014.
Byggðasafnið tók á móti ríflega 40 þúsund gestum á árinu og gefin voru út átta rannsóknaskýrslur og eitt smárit.
„Við héldum áfram viðgerðum og byggingahandverkskennslu á Tyrfingsstöðum með Fornverkaskólanum. Við kláruðum að skrá strandminjar út að austan og skráðum og rannsökuðum austfirskar minjar. Við skráðum 2500 ljósmyndir frá Tyrfingsstöðum í Sarp,“ segir á vef safnsins.
Einnig var haldið áfram verkefninu Eyðibýli og afdalir, í samstarfi við starfsmenn Byggðasögu Skagafjarðar og fjölda nýrra staða kannaðir. Staðir og svæði sem rannsökuð hafa verið í tengslum við útgáfu ritsins eru hátt í 80 talsins. Unnið var að miðaldakirkjurannsóknum með bandarísku rannsóknarteymi (SASS), sem safnið er og hefur verið í samstarfi við.
Byggðasafnið tók þátt í evrópska samstarfsverkefninu LoCloud í samstarfi við Minjastofnun Íslands. En verkefnið miðar að því að gera smærri söfnum eða öðrum menningarstofnunum kleift að gera starfrænt efni aðgengilegt á netinu.
„Við fórum í Rökkurgöngu í gamla bæinn í Glaumbæ, á jólaföstunni, þrátt fyrir ómögulegt veður og ófærð. Við gerðum ýmislegt fleira, bæði innan héraðs og utan, og munum tíunda það í ársskýrslunni sem er væntanleg á þorranum,“ er á meðal þess sem segir um verkefni ársins á síðu heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga.