Tónlistin, hestamennskan og bæjarhátíðir – Áskorendapenninn Skarphéðinn Einarsson

Hestamaðurinn Skarphéðinn spáir í hrossin.
Hestamaðurinn Skarphéðinn spáir í hrossin.

Á mig skoraði Benedikt Blöndal Lárusson vinur minn og samstarfsmaður til margra ára, og fyrsta hugsunin var sú, hvurn andsk... á  ég að skrifa um. Það sem mér stendur næst er tónlist þar sem ég hef starfað við tónlist og tónlistarkennslu síðan 1970 og nú sagt upp föstu starfi við Tónlistarskóla A-Hún enda kominn á þann aldur og mál er að hætta.

Á þessum árum hefur orðið mikil þróun í kennslu og tækni sem erfitt er að fylgja, en frá því ég byrjaði að kenna (sem var fyrir tilviljun)hafa sprottið upp tónlistarskólar hringinn í kringum landið, og viti menn Ísland hefur eignast ótrúlegan fjölda frábærra tónlistarmanna sem getið hafa sér frægð og frama um heim allan. Það streymir út ný íslensk tónlist í hverjum mánuði eða jafnvel vikulega allt árið um kring og flestir vilja „meikaða“ í útlöndum og því verður enska fyrir valinu í textagerð sem er  miður því ekki megum við hætta að yrkja á okkar ylhýra máli.

Ég hef undanfarin 17 ár verið aðili að hestaferðum með erlenda hópa um hálendið og afrétti í nágreni Blönduóss. Það er afar merkilegt hvað mikið aðdráttarafl íslenski hesturinn hefur, hann er örugglega eins og fyrrum þingmaður og ráðherra sagði „öflugasti sendiherra“ okkar íslendinga. Það virðist vera að hesturinn og auðvitað náttúran hafi þau áhrif á fólk að það kemur aftur og aftur til að njóta samvistar við hrossin og landið. Enda sýnir það best að það eru fjölmörg fyrirtæki sem gera út á hestaferðir um allt land.

Núna standa yfir héraðs og bæjahátíðir um allt land, og Húnavaka verður á næstunni hér á Blönduósi gefin hefur verið út bæklingur sem dreift hefur verið um héraðið, þarna er boðið upp á fjölda skemmtikrafta og sumum af frægari gerðinni en þeir koma auðvitað að sunnan sennilega eru heimamenn ónothæfir í þetta verkefni. Þegar ég var að alast upp hér á Blönduósi var Húnavakan yfirleitt upp úr páskum og mikið í lagt af heimamönnum, leikrit, tónleikar, bíósýningar og böll á hverju kvöldi í heila viku. Þá voru samt ekki eins góðar samgöngur, ekki sjónvarp og ekki samfélagsmiðlar svo fólkið þurfti að skemmta sér sjálft. Það virðist vera í dag að engin tími sé til sjálfboðavinnu því engin gerir neitt fyrir ekkert. Ég vitna í gamlan bónda sem sagði“það er svo mikið að gera að maður hefur ekki tíma til neins.

Ég skora á Hörð Ríkharðsson kennara á Blönduósi að taka við pennanum.

Áður birst í 28. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir