Víða hálka eða snjóþekja á vegum
Ríkjandi áttin í dag er af norðaustan sem þýðir að hætt er við að það snjói hjá þeim sem búa vestan við Skaga og Tröllaskaga. Þannig er til dæmis snjókoma nú í Hjaltadal og éljagangur við Blönduós og í Langadal samkvæmt Umferðarsíðu Vegagerðarinnar.
Hálkublettir eru á Vatnsskarði og á Þverárfjallsvegi en þar virðist lítið hafa snjóað. Talsverður vindur er á Þverárfjallsvegi. Hálka er á Öxnadalsheiði en snjóþekja eða hálka er á öllum vegum í Eyjafirði og þar er ýmist éljagangur eða snjókoma.
Reikna má með stífri norðanátt á Norðurlandi vestra í dag en lítilli úrkomu eftir hádegi. Hitinn ætti að hanga rétt yfir frostmarki. Á morgun, fimmtudag, er spáð björtu veðri og hægri norðanátt og áfram verður stillt fram yfir helgi en það er sennilegt að hann kasti éljum um helgina.
Þá má geta þess að Lögreglan á Norðurlandi vestra bendir á það á Facebook-síðu sinni að „... nú er rétti tíminn til að skipta yfir á vetrardekk ef fólk er ekki búið að því nú þegar. Rétt útbúinn bíll skiptir sköpum fyrir öryggi allra í umferðinni. Ef bíllinn er ekki kominn á vetrardekk eða er illa búinn fyrir aðstæður, látum hann bíða og göngum frekar. Það er alltaf betra að komast seinna á áfangastað – eða einfaldlega ekki leggja í hann – en að lenda í slysi.“
Umferðarkort Vegagerðarinnar frá því 8:41 í morgun.