Bleiki dagurinn er í dag!
Á Bleika deginum berum við Bleiku slaufuna, klæðumst bleiku og lýsum skammdegið upp í bleikum ljóma til að minna á að það er list að lifa með krabbameini. Við stöndum með öllum konum sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra. Hvar fæst Bleika slaufan? Í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins og hjá hátt í 400 söluaðilum um land allt.
Á síðu Krabbameinsfélagsins segir: „Bleika slaufan er lítil og nett en þrátt fyrir það kemur hún miklu til leiðar og snertir samfélagið allt. Í ár hefur hún þrátt fyrir smæð og fínleika ótrúlega þyngd, vegna reynslu hönnuðarins, Thelmu Bjarkar Jónsdóttur, listakonu sem lifir með ólæknandi krabbameini og lýsir í átakinu, ásamt fleiri konum, listinni við að lifa með ólæknandi krabbameini.
Í 26 ár hefur Bleika slaufan verið veigamikill þáttur í starfi Krabbameinsfélagsins, bæði sem vitundarvakning og fjáröflun. Og ekki veitir af. Baráttan við krabbamein felst ekki í einhverju einu. Hún vinnst ekki nema nýttar séu fjölbreyttar leiðir um landið allt. Stuðningur, forvarnir, greining og meðferð og vísindastarf eru þar lykilþættir.
Bleika slaufan sýnir ekki aðeins samstöðu og samhug heldur er hún líka stór þáttur í fjármögnun fjölbreytts starfs félagsins. Hún stendur meðal annars undir hagsmunagæslu félagsins fyrir þá sem fá krabbamein og aðstandendur þeirra. Sú vinna er oft sýnileg þar sem Krabbameinsfélagið kemur fram sem málsvari fólks með krabbamein en ekki síður bak við tjöldin með samtölum við stjórnvöld og veitendur heilbrigðisþjónustu þar sem félagið miðlar upplýsingum til þeirra sem skipuleggja og veita þjónustu.“
Þess má geta að pappírsútgáfa Feykis er að venju með bleikan haus allan októbermánuð en næsta blað, sem kemur út 29. október, verður tileinkað bleikum október.