Umfangsmikil járnvinnsla á sér lengri sögu en áður var talið

Hópur fornleifafræðinga á vegum Fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga hefur undanfarnar vikur unnið að fornleifarannsóknum á jörðinni Skógum í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðrar gangnagerðar undir Vaðlaheiði en á síðasta ári komu þar í ljós minjar umfangsmikillar járnvinnslu. „Frumniðurstöður þessa árs benda til að járnvinnslan eigi sér lengri sögu en áður var talið og að hana megi rekja að minnsta kosti aftur til 11. aldar,“ segir Guðmundur Stefán Sigurðarson fornleifafræðingur.

Rannsókn þessara minja hófst síðasta haust en járnvinnsluna segir Guðmundur vera mitt í gangnastæði Vaðlaheiðagangna að austanverðu.

„Slitrur úr gjósku úr þekktu Heklugosi frá árinu 1104 fundust í stórum gjallhaugi sem er á svæðinu og virðist um helmingur framleiðslunnar hafa átt sér stað fyrir þann tíma,“ útskýrir Guðmundur og segir að allri vinnslu virðist hins vegar hafa verið hætt nokkru fyrir 1300, þegar önnur þekkt gjóska úr Heklu féll.

„Ljóst er að framleiðsla járns á staðnum hleypur á tonnum, en unnið er að mælingum á umfangi og innihaldi gjallhaugsins, sem og uppgreftri og uppmælingum annarra minja á svæðinu,“ segir hann.

Guðmundur tekur fram að ekki sé gert ráð fyrir töfum við gangnagerð af þessum sökum, en starfsmenn fornleifadeildar safnsins verða við rannsóknir á Skógum út mánuðinn.

Fleiri fréttir