Umhverfisráðherra leggst gegn undanþágu
Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að urðunarstaðurinn Stekkjarvík í Austur-Húnavatnssýslu hygðist óska eftir undanþágu á starfsleyfi frá Umhverfisstofnun þar sem sláturúrgangur hafi aukist mikið. Því séu líkur á að þeir fari yfir leyfilegt magn úrgangs til urðunar í ár en staðurinn hefur leyfi til að urða allt að 21.000 tonn árlega.
Að sögn Fannars Viggóssonar, verkstjóra urðunarstaðarins, eru tvær meginskýringar á því að þörf sé á undanþágu frá Umhverfisstofnun. Annars vegar hendi einstaklingar meiru en áður sem sé merki um uppsveiflu í einkaneyslu, hins vegar að tekið sé við sorpi og úrgangi frá stærra svæði eða allt frá Húnaþingi vestra austur í Norðurþing.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, segir í viðtali við Fréttablaðið á föstudag að hún leggist gegn því að veita undanþágu frá gildandi starfsleyfi. „Það leysir ekki þann vanda sem við er að etja því ljóst er að sama vandamál mun koma upp aftur næsta haust ef fram heldur sem horfir,“ segir Björt. Hún bætir því við að vinna hafi verið í gangi við að banna urðun lífræns úrgangs. „Mun umhverfisvænna er að nýta þennan lífræna úrgang til þarfari verka, svo sem í moltugerð eða framleiðslu á lífdísil. Í rauninni eru möguleikarnir margir og betri fyrir náttúruna en urðun.,“ segir Björt ennfremur.
Tekið er á móti lífrænum úrgangi hjá Jarðgerðarstöðinni Moltu í Eyjafirði sem tók við rúmum átta þúsund tonnum til moltugerðar í fyrra. Úr því eru framleidd um fjögur þúsund tonn af næringarríkum jarðvegi sem hefur nýst vel til landgræðslu sem bæði bændur og fyrirtæki hafa nýtt sér. Þar er hægt að taka við öllum sláturúrgangi sem fellur til á Norðurlandi. Kristján Ólafsson, framkvæmdastjóri Moltu í Eyjafirði, segir í viðtali við Fréttablaðiðað hins vegar sé ódýrara fyrir fyrirtækin að láta urða úrganginn en að búa til moltu úr honum sem þó sé mun umhverfisvænna í alla staði.