Keypti heddsett um leið og Doobie's til að trufla ekki jólin / STEBBI GÍSLA

Stefán Gíslason stjórnandi Heimis á afmælistónleikum karlakórsins margrómaða. MYND: ÓAB
Stefán Gíslason stjórnandi Heimis á afmælistónleikum karlakórsins margrómaða. MYND: ÓAB

Skagfirðingurinn og öðlingurinn Stebbi Gísla (1954) er uppalinn í Miðhúsum í Akrahreppi. Móðir hans hét Guðrún Stefánsdóttir frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi en faðir hans, Gísli Jónsson, var frá Miðhúsum í Blönduhlíðinni. Stebbi, sem spilar á píanó, orgel og harmoniku, hefur búið í Varmahlíð til fjölda ára og því varla nema nokkur skref í Miðgarð þar sem hann stjórnar æfingum Karlakórsins Heimis. Hann er tónlistarkennari og hefur komið mörgum snillingnum til vits og tóna. 

Auk þess að taka Heimismenn til kostanna þá er Stebbi fimmta hjólið undir vagni Álftagerðisbræðra en hann spilar undir hjá þeim hvert sem leið þeirra liggur. Eins og margur skagfirskur tónlistarmaðurinn kom hann líka við í Hljómsveit Geirmundar en spurður um helstu tónlistarafrek sín segir hann þau vera „... að hafa verið starfandi í tónlist, nær óslitið frá 11 ára aldri, en þá byrjaði ég að spila á böllum í Hlíðarhúsinu, Héðinnsminni og mörgum fleiri stöðum.“ Þá má geta þess að nú seinni árin hefur Stebbi verið duglegur að færa sönglög á svið í Skagafirði ásamt Einari Þorvaldssyni og fleira góðu fólki en þar hafa margir ungir söngvarar stigið sín fyrstu skref á stóru sviði.

Hvaða lag varstu að hlusta á? For Once in My Life með Stevie Wonder.

Uppáhalds tónlistartímabil? Frá 1974 til dagsinns í dag 2018 – þetta hefur verið eintóm hamingja.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Það er eiginlega allt sem er fallega flutt, eins og til dæmis: Dein ist mein ganzes herz, með, Domingo og Kaufmann, það er dálítill stíll yfir því. Bee Gees, Stevie Wonder, Elvis Presley, The Mills Brothers, og margt fleira. Svo er það kirkjutónlistin og tónlist sem tengist starfinu, kórunum og Tónlistarskólanum.

Hvers konar tónlist var hlustað á, á þínu heimili? Það var hlustað á alla tónlist sem gamla gufan bauð uppá. Haukur Morthens, Sigurður Ólafsson, Ellý Vilhjálms,Raggi Bjarna, K.K. sextett, Hljómsveit Svavars Gests, Bítlana, The Rolling Stones og The Beach Boys, svo dæmi séu tekin.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það var plata með The Doobie Brothers sem ég festi kaup á rétt fyrir jól, fyrir margt löngu. Ég fékk mér líka heddsett, til að geta hlustað á plötuna yfir jólin. Það þótti ekki gott að vera að trufla jólastemninguna með einhverju poppi.

Hvaða græjur varstu þá með? Dual frá Itta á Króknum.

Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Bimbó, Bimbó.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það er engin tónlist sem nær því, það eru frekar einhverjar vondar fréttir.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Michael Jackson, Justin Timberlake, Bee Gees, Elvis Prestley, Ellý Vilhjálms og Maria Callas.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Það er mjög notalegt að heyra álfta- og gæsasönginn berast inn um gluggann, neðan frá ánni þegar fer að vora.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Mér er alveg sama í hvaða landi ég hlusta á tónlist. Ég færi í Hörpu, að hlusta á Justin Timberlake og hefði alla fjölskylduna með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? The Beach Boys, Hljómar, Bítlarnir, The Dave Clark Five og The Police.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur aldrei dreymt neitt svoleiðis, maður situr hvort sem er uppi með sjálfan sig.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það er erfitt að átta sig á því, ég segi pass.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?

Heartbreaker / Bee Gees
For Once in Mi Life / Stevie Wonder. 
Með nesti og nýja skó / HLH flokkurinn: 
Paper Doll /  The Mills Brothers.
Dein ist mein ganzes herz / Placido Domingo / Jonas Kaufmann.
Ég vil fara upp í sveit / Ellý Vilhjálms.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir