Ungt Framsóknarfólk styður forsætisráðherra Finnlands vegna fatavals

Meðfylgjandi er mynd af nokkrum einstaklingum í Framsóknarflokknum sem hafa klætt sig eins og Sanna Marin var klædd á þeirri mynd sem hún er gagnrýnd fyrir.
Meðfylgjandi er mynd af nokkrum einstaklingum í Framsóknarflokknum sem hafa klætt sig eins og Sanna Marin var klædd á þeirri mynd sem hún er gagnrýnd fyrir.

Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna hefur sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sem núna sætir mikilli gagnrýni þar sem hún er sökuð um að hafa ekki hegðað sér í samræmi við embættið. Segir í tilkynningu SUF að margur gæti haldið að gagnrýnin stafi af brotlegri hegðun hennar í starfi, óviðeigandi ummæla eða illa unnum störfum en svo er ekki raunin.

Gagnrýnin kemur starfi Sanna Marin ekkert við, heldur stafar hún af því að hún sat fyrir á forsíðu tímarits í fatnaði sem fólki fannst ekki viðeigandi, klæðnaði sem að sumir telja of efnislítinn og/eða of kynþokkafullan.

„Sumir hafa jafnvel gefið í skyn að hún sé ekki hæf til að starfa sem forsætisráðherra vegna þessa. Sanna er yngsti sitjandi forsætisráðherra í heimi og er leiðtogi fimm flokka samsteypustjórnar.

Margir hafa bent á fáránleika gagnrýninnar. Bylgja er hafin til stuðnings Sönnu og konum í stjórnmálum. Bylgja af röddum sem vilja kveða gamaldags hugsanir niður og óviðeigandi gagnrýni sem konur í valdastöðum upplifa meðal annars vegna klæðnaðar. Um allan heim hafa konur í stjórnmálum talað um neikvætt viðhorf gagnvart sér og samstarfskonum sínum óháð flokkum. Í lok árs 2017 sendu 419 stjórnmálakonur á Íslandi frá sér yfirlýsingu þar sem þær sögðu frá því að kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér stað í heimi stjórnmálanna. Í kjölfarið hefur orðið mikil vitundarvakning. Þó megum við ekki sofna á verðinum. MeToo bylgjan hefur til að mynda verið endurvakin í Danmörku eftir að danska fjölmiðlakonan Sofie Linde sagði frá kynferðislegri áreitni sem hún hefur upplifað í starfi sínu.

Í Framsóknarflokkinum eru margar konur sem starfa á sviði stjórnmála og stefna á áframhaldandi starf innan þeirra. Útlit og klæðnaður kemur hæfni og getu einstaklinga ekki við. Ungt Framsóknarfólk vill að öll geti starfað í öruggu umhverfi þar sem komið er fram við þau af virðingu óháð kyni og klæðnaði.

Öll eiga rétt á því að láta í sér heyra og klæðast því sem þau vilja. Við stöndum með Sönnu,“ segir í tilkynningu frá SUF.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir