Útsaumsnámskeið í Kvennaskólanum á Blönduósi
Til stendur að halda námskeið í útsaumi í Kvennaskólanum á Blönduósi dagana 21. og 22. október og er námskeiðið ætlað öllum þeim sem áhuga hafa á útsaumi og einnig þeim sem áhuga hafa á að prófa eitthvað nýtt. Kennari á námskeiðinu verður Björk Ottósdóttir, kennari við Skals design og håndarbejdsskole, í Danmörku en sá skóli er mörgu íslensku handverksfólki að góðu kunnur.
Kennt verður að yfirfæra munstur (prikka), mismunandi húllföldun, kanta og grunna. Einnig verður boðið upp á merkingar með stöfum í mismunandi aðferðum. Hægt er að taka með sér hálfkláruð verk sem „bíða“ í skúffunni og þarfnast upprifjunar. Þá verða alls kyns sýnishorn af smáhlutum, t.d. til jólagjafa á námskeiðinu.
Kennt verður á laugardegi frá kl. 10:00 - 12:00 og 13:00 - 18:00 og á sunnudegi frá kl. 9:00-12:00.
Námskeiðsgjald er 21.000.- kr. og er hámarksfjöldi þátttakenda: 12 manns.
Skráning á námskeiðið er í gegnum netfangið textilsetur@simnet.is eða skrifstofa@tsb.is