Úff.... stórt er spurt / PÁLL BJÖRNS

Páll Sigurður Björnsson býr á Hvammstanga en ólst upp á Bessastöðum í Hrútafirði. Páll sem er af  árgangi 1972 hefur lært á ýmis hljóðfæri en þau sem hann spilar nú á eru trompet - sem hann segist þó vera slakur á-, píanó - sem hann væri til í að vera betri á - og bassi.

Helstu tónlistarafrek Páls segir hann vera að spila á níu söngvarakeppnum sem haldnar hafa verið í Húnaþingi vestra síðan 2000 og að spila á hljómborð og píanó á Pink Floyd heiðurstónleikum sem haldnir voru hér árið 2005.

Uppáhalds tónlistartímabil? Sextíu og sjötíu tímabilin en svo ákveðin tímabil hjá mörgum hljómsveitum. Ég er meira í svoleiðis pælingum varðandi tímabil.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Mér finnst ný íslensk tónlist mjög góð í dag. Til dæmis lög með Múgsefjun, Tilburi, Ásgeiri Trausta, Kiriyama Family og fleiri.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var nú alls konar tónlist. Mikið af kóratónlist, harmonikkutónlist, rokk og popp og MJÖG margt fleira.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta platan: Dead Or Alive – You spin me round like a record. Diskurinn: Sálin hans Jóns míns – Garg. Kasettan: Einhver spóla með Mezzoforte. Niðurhalið: Robbie Williams – Let me entertain you.

Hvaða græjur varstu þá með? JVC ekta gamaldags stóra stofugræju.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ég raula oftast eitthvað sem ég er að reyna að búa til sjálfur en oftast gleymist það allt nokkrum mínútum síðar.

Wham! eða Duran? Báðar hljómsveitir góðar á sinn hátt en Duran Duran frekar því Nigel John Taylor er svo assgoti magnaður bassaleikari.... eða var það allavega einu sinni.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég færi einföldu leiðina til að gera flestum til hæfis og setti um árs gamlan Pott þétt disk í græjuna.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Rólegan Jazz/Blues með Béla Fleck and the Flecktones.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Coldplay í Royal Albert Hall og tæki Helgu með mér.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur ekki dreymt um að vera neinn tónlistarmaður svo sem en þeir tónlistarmenn sem ég lít upp til eru Jóhann Ásmundsson bassaleikari og Wictor Wooten bassaleikari. Svo finnst mér Pálmi Sigurhjartarson alveg einstaklega skemmtilegur píanóleikari.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Úff.... stórt er spurt. Þá svara ég stórt (eða langt kannski frekar): Það er engin best að mínu mati. Nýlegt dæmi um mjög góða plötu er diskurinn Múgsefjun (gefinn út 2012) með hljómsveitinni Múgsefjun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir