Vatnsskarð og Öxnadalsheiði lokaðar vegna óveðurs

Gul viðvörun gildir fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Austfirði. Austan og Norðaustan stormur verður ríkjandi á Norðurlandi vestra, með snjókomu eða skafhríð. Lokað er yfir Vatnsskarð og Öxnadalsheiði.

Á vef Vegagerðarinnar segir að hálka eða snjóþekja sé á vegum á Norðurlandi og þæfingsfærð og stórhríð í Víkurskarði. Lokað er yfir Vatnsskarð og Öxnadalsheiði vegna óveðurs.  Reiknað er með að aðstæður á þessum fjallvegum batni um miðjan dag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Austan 15-23 m/s, en 23-30 syðst. Lægir eftir hádegi, fyrst með suðurströndinni, allvíða austan 8-15 undir kvöld. Snjókoma eða slydda, einkum á austurhelmingi landsins, en rigning með austurströndinni. Hlýnar í veðri, hiti kringum frostmark síðdegis.

Á fimmtudag:
Austlæg átt 3-10, en norðaustan 10-15 á Vestfjörðum. Yfirleitt þurrt á Vesturlandi, annars dálítil él. Víða frostlaust við ströndina, en vægt frost til landsins.

Á föstudag og laugardag:
Suðvestan 8-13 m/s og él, en hægari vindur og bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti rétt ofan frostmarks við suður- og vesturströndina, annars frost 1 til 7 stig.

Á sunnudag:
Hæglætisveður og þurrt framan af degi og frost um allt land. Gengur í hvassa suðaustanátt seinnipartinn með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu sunnan- og vestanlands. Hlýnar í veðri.

Á mánudag:
Snýst í suðvestanátt með slydduéljum eða éljum, en léttir til fyrir norðan og austan. Kólnar smám saman.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir