Vaxandi snjókoma eftir næstu tunglkomu

Ofurtungl og rosabaugur. Mynd: PF
Ofurtungl og rosabaugur. Mynd: PF

Þriðjudaginn 5.  desember 2017  komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar til að huga að veðurhorfum í jólamánuðinum.  Fundurinn hófst kl. 14:00 og  voru fundarmenn sex talsins, sem er óvenju fámennt, en nokkrir veðurspámenn voru uppteknir við jólaundirbúning og ýmiss viðvik, sem gera þarf á aðventu. Fundinum lauk kl. 14:25. Fundarmenn voru nokkuð sáttir með hvernig síðasta spá gekk eftir en þó reyndist heldur meiri sjókoma en reiknað var með.

Nýtt tungl kviknar í austri þann 18. desember samkvæmt áreiðanlegum heimildum og gerist það kl. 06:31 samkvæmt sömu áreiðanlegu heimildum, segir í tilkynningu frá Veðurklúbbnum. Um jólatungl er að ræða sem að þessu sinni ber upp á mánudag.

„Desember verður frekar rysjóttur framan af mánuði og kaldari en undanfarið. Eftir næstu tunglkomu má reikna með vaxandi snjókomu. Áttir verða breytilegar og kaldari tíð en fyrir ári síðan. Spár þessar eru byggðar á ýmsum vísbendingum, sem ekki verða í smáatriðum gefnar upp, en nefna má mikinn músagang. Nær öruggt er talið að það verði hvít jól en ekki mikil ófærð.“

Veðurvísa  desember

Þó desember sé dimmur,
þá dýrðleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól

Með jóla- og áramótakveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir