Vaxandi sunnanátt með gulri viðvörun

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra og Suðausturland en búist er við suðvestan storm í kvöld og nótt 15-23 metra á sekúndu með rigningu og hviðum að 40 m/s. Það þýðir að varasamt getur verið fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni.

„Útlit er fyrir hvassa vindstrengi á norðanverðu Snæfellsnesi undir kvöld með hviðum staðbundið kringum 35 m/s. Slíkur vindur getur verið varasamur, sérílagi fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Talsverð rigning á vestanverðu landinu í nótt og á morgun, en dregur úr vætunni seint annað kvöld. Áfram má búast við vatnavöxtum, „segir í athugasemd veðurfræðings.

Á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra er gert ráð fyrir sunnan 5-10 og léttskýjuðu, en vaxandi sunnanátt seinnipartinn, 10-15, en hvassari á Ströndum. Skýjað og úrkomulítið í kvöld. Bættir í úrkomu eftir hádegi á morgun en léttir til annað kvöld. Hiti 11 til 16 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Suðvestan 10-15 á norðan- og austanverðu landinu og hvassari í fyrstu, en 5-10 annars staðar. Víða léttskýjað. Hiti yfirleitt 12 til 17 stig, en hiti allt að 23 stigum á Norðaustur- og Austurlandi.

Á laugardag:
Sunnan 5-13 og dálítil rigning eða súld með hita 10 til 15 stig, en hægari og léttskýjað um norðaustanvert landið og hiti 16 til 22 stig.

Á sunnudag:
Suðaustlæg átt 5-10 m/s og dálítil rigning sunnan- og vestantil, en hæg breytileg átt, þurrt og bjart norðaustan- og austanlands. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Suðaustlæg átt og bjart með köflum, en úrkomulítið sunnan- og vestanlands. Hiti víða 13 til 18 stig.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt. Skýjað og rigning eða súld um norðvestanvert landið og hiti 8 til 13 stig, en víða bjartviðri annars staðar og 13 til 18 stiga hiti.

Spá gerð: 12.08.2020 08:35. Gildir til: 19.08.2020 12:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir