Veðrabrigði framundan
Nú er útlit fyrir að hlé verði á veðurblíðunni sem leikið hefur við okkur síðustu dagana. Í hugleiðingum veðurfræðings á Vedur.is segir m.a.: „Næsta sólarhringinn verða töluverð umskipti á veðrinu, því í nótt gengur í norðaustan hvassviðri eða storm með ofankomu um landið N-vert, snjókoma til fjalla, en slydda á láglendi, þótt sums staðar nái að hanga í rigningu næst ströndinni.“
Í kvöld er gert ráð fyrir að fari að kólna norðanlands og í fyrramálið er reiknað með norðaustan 15-25 m/s, hvassast NV til með snjókomu til fjalla fyrir norðan en slyddu á láglendi. Annað kvöld hægir heldur og dregur úr úrkomu.
Veðurhorfur næstu daga eru þannig:
Á miðvikudag:
Norðaustan 13-23 m/s, hvassast NV-til og með S-ströndinni. Rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla á N-verðu landinu. Hiti 0 til 7 stig, mildast SV-lands.
Á fimmtudag:
Norðaustan 13-23, hvassast með S-ströndinni. Rigning, einkum SA-til, en sums staðar slydda fyrir norðan. Áfram svalt í veðri.
Á föstudag og laugardag:
Austan 10-18 og rigning, einkum SA-til. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast um landið V-vert.
Á sunnudag:
Suðlæg átt 5-10 og skúrir, en þurrt að mestu N-lands. Hlýnar heldur.
Á mánudag:
Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt með úrkomulitlu veðri, en rigning austantil seinnipartinn. Hiti 4 til 10 stig.
Það er því líklega betra fyrir þá sem komnir eru á sumardekkin að hafa varann á sé ætlunin að ferðast um fjallvegi næstu dagana sem og bændur að nýbornum ám.