Veður að ganga niður eftir mikinn storm

Björgunarsveitin Húnar að störfum fyrr í þessum mánuði. Myndin er af Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Húna.
Björgunarsveitin Húnar að störfum fyrr í þessum mánuði. Myndin er af Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Húna.

Það hefur verið í ýmsu að snúast hjá björgunarsveitunum í Húnavatnssýslunum í óveðrinu sem gengið hefur yfir landið í dag. Á Hvammstanga losnaði klæðning af húsi og rúða gekk inn á einum stað en í báðum tilfellum var um minni háttar aðgerðir að ræða að því er Gunnar Örn Jakobsson, formaður Björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga sagði í samtali við Ruv.is í morgun. Einnig fóru menn frá sveitinni upp á Holtavörðuheiði í morgun til aðstoðar tveimur erlendum ferðamönnum sem lent höfðu í vandræðum þar.

Á Blönduósi brotnuðu rúður í tveimur bílum, í öðru tilfellinu hjá erlendum ferðamanni sem var á ferð innanbæjar en í hinu tilfellinu var bíllinn í eigu íbúa og kyrrstæður. Í hádegisfréttum útvarps var rætt við íbúa í Vatnsdal þar sem var hávaðarok í kringum hádegið. Á Brúsastöðum í Vatnsdal fór vindur í 40 metra á sekúndu í mestu hviðunum en klukkan tólf var stöðugur vindur þar 31 metri á sekúndu. Ekki var þó kunnugt um tjón vegna óveðursins á þeim slóðum.

Nú virðist veðrið vera að ganga niður og þessa stundina eru engar viðvaranir né lokanir á vegum á svæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir