Veður í ágúst verði svipað og í júlí

Í gær, þriðjudaginn 1. ágúst, komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar, eftir sumarleyfi. Engin spá var gefin út fyrir júlímánuð en eins og flestir muna var einmuna veðurblíða síðari hluta þess mánaðar. Fundurinn hófst kl. 13:55 og  voru fundarmenn 14 talsins.  Fundi lauk kl. 14:20.

Tungl sem er ríkjandi fyrir veðurfar í ágúst kviknaði 23. júlí í suðaustri kl. 9:46. Klúbbfélagar gera ráð fyrir að veður í ágúst verði svipað og í júlí a.m.k. fram yfir hundadaga, sem ljúka 23. ágúst.

Þann 21. ágúst kviknar nýtt tungl í vestri og gæti þá orðið einhver veðrabreyting.  Klúbbfélagar gera ráð fyrir sólríku og góðu veðri á Fiskidaginn mikla og senda öllum fiskidagskveðjur.

Veðurvísa  ágúst og sept:

Í ágúst slá menn engi
og börnin tína ber.
September fer söngfugl
og sumardýrðin þverr.

Fleiri fréttir