Myndi frekar tromma í sturtunni ef það væri hægt / KALLI JÓNS

Karl Jónsson, eða bara Kalli Jóns, ólst upp í syðri bænum á Sauðárkróki, nánar tiltekið á Hólaveginum og nágrenni. Hann býr nú heldur utar í bænum. Hljóðfærið hans Kalla eru trommur en hann lék reyndar á trompet í 5 ár. Hann er fæddur árið 1969.

Helstu tónlistarafrek: Hljómsveitirnar Bad Boys, Metan og Herramenn. Síðar ýmis tónlistarverkefni á Ísafirði, m.a. stórsýningin Those were the days og síðar Hljómsveitin Eidís, sem sérhæfði sig í 80’s ballprógrammi. Svo átti ég ógleymanlega stund með Bakarasveitinni, á útgáfutónleikum Róberts bakara, það var virkilega skemmtilegt verkefni, sem ég æfði lengi fyrir.

Uppáhalds tónlistartímabil? 80’s…….. nema hvað!

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Coldplay finnst mér svakalega flottir, Keane sömuleiðis og öll þessi frábæru íslensku bönd sem eru að gera góða hluti.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Pabbi hlustaði mikið á klassík og ég ólst talsvert upp við það sem og gömul og góð íslensk sönglög. Mínar stundir við viðtækið voru þegar Lög unga fólksins voru og hétu.

Hvað var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta LP platan, var Greatest hits með Blondie. Fyrsti CD-inn var Still got the blues með Gary Moore.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég átti forláta Sony combo-græju sem ég fékk í fermingargjöf frá foreldrum mínum og við hana var tengdur Marantz plötuspilari sem ég keypti mér fyrir fermingarpeningana. Þegar fyrsti diskurinn var keyptur átti ég ferðaspilara, Sony, sem tengdur var við Pioneer græjur.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Syng aldrei upphátt af tillitssemi við heimilisfólkið, en inni í mér syng ég ýmislegt. Myndi frekar tromma í sturtunni ef það væri hægt.

Wham! eða Duran? 50/50, ég er svo líbó.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Mörg prýðislög komið úr Júróvisjón. Ég lifi í draumi eftir Eyfa Kristjáns finnst mér eitt það flottasta úr íslensku keppninni.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég myndi byrja á Eagles Farewell tour tónleikunum á meðan fólk væri að koma sér í gírinn en um miðbikið færi heimasmíðaður 80’s partýdiskur að rúlla, á honum eru margir gullmolar frá þeim tíma. Seinni hlutinn væri svo helgaður meira rokki;  Big Country og Van Halen og 2-3 lög af The unforgettable fire með U2. Partýinu myndi svo ljúka með tónleikaútgáfu Comfortably Numb með Pink Floyd. Kannski myndu ekki allir komast í stuð við þetta, en ég alla vega!

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég myndi byrja á því að fara í bakaríið og kaupa rúnstykki og setja svo diskinn með bakaranum í græjurnar í eldhúsinu. Einstaklega þægilegur diskur, rétt eins og maðurinn sjálfur, silkimjúkur.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Pottþétt á Pink Floyd tónleika, kannski bara í Earls Court, eða í Feneyjum. Ætli ég myndi ekki bjóða Bogga Reynis með mér.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Nick Mason, trommara í Pink Floyd, taka eina tónleika úr Pulse eða Delicate Sound of Thunder túrunum. Hef stundum spilað með þessum tónleikum á settið í kjallaranum þegar ég er einn heima. .

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Öss, þessi er rosalega erfið. Margar frábærar plötur koma í hugann að mínu mati. Mínar uppáhalds síðan í den eru Steeltown með Big Country, 1984 með Van Halen, Making movies með Dire Straits. Svo náttúrlega Dark side of the moon með Pink Floyd, ég gæti haldið endalaust áfram. Annars legg ég mig eftir því að eignast dvd-diska með hljómsveitum á tónleikum. Þar komast fáir með hælana þar sem Pink Floyd hefur tærnar, nema kannski U2 og Farewell túrinn með Eagles eru flottir tónleikar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir