„Við eigum frábæran efnivið í okkar hópi“

Donni þjálfari. MYND: DAVÍÐ MÁR
Donni þjálfari. MYND: DAVÍÐ MÁR

Hafnfirðingar höfðu betur gegn liði Tindastóls á gervigrasinu á Króknum í gær í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Leikurinn var ágætlega spilaður af beggja hálfu en lið Tindastóls sýndi ágæta takta og gerði eiginlega allt nema að koma boltanum í mark FH. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Donna þjálfara þegar púlsinn var að komast í jafnvægi.

Ég mundi segja að lið FH hafi verið stálheppið að vinna leikinn. Hvað vantaði upp á til að ná í stig og hvað varstu ánægðastur með? „Ég er mjög ánægður með framistöðuna í heild. Við fengum fá færi á okkur og sköpuðum nóg til að skora nokkur mörk en inn vildi boltinn því miður ekki. Markið þeirra var frábært skot en annars fannst mér við ofan á í þessum leik langstærsta hlutann af honum. Færasköpunin var frábær og ég er hæst ánægður með það en færanýtingin ekki góð en það er eitthvað sem mun koma hjá okkur með tímanum og þá helst i næsta leik.“

Það voru nokkrar ansi ungar stúlkur sem fengu að spreyta sig í leiknum í gær. Varstu sáttur við þeirra framlag? „Við eigum frábæran efnivið í okkar hópi og þær eru allar mjög flottar og svo eru enn fleirri sem bíða eftir sínu tækifæri. Liðsheildin var lika mjög góð og allar stóðu sig vel.“

Varstu ánægður með mætinguna á völlinn? „Mætingin var alveg geggjuð i dag og ég er svo endalaust þakklátur fyrir stuðningin og við erum ennþá svekktari yfir úrslitunum einmitt þess vegna.“

Augljóslega er breiddin í hópnum ekki mikil, er eitthvað að gerast varðandi viðbætur? „Ég vona innilega að þetta sé það sem koma skal, því úrslitin munu falla með okkur. Við viljum bæta við okkur og erum að reyna það en gengur hægt. Annars er ég mjög glaður með þá leikmenn sem fyrir eru,“ segir Donni en í viðtali við Vísi í gær sagði hann Tindastól hafa reynt mikið að fá knattspyrnustúlkur af höfuðborgarsvæðinu til að koma norður en án árangurs. „Það er miklu þægilegra að fara í Hafnarfjörð eða eitthvað annað, þá þarf maður ekki að fara úr borginni eins þroskandi og það er,“ segir Donni, pínu svekktur, í viðtali við Vísi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir