Viðaukasamningar við sóknaráætlanir

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert viðaukasamninga við sóknaráætlanir þriggja landshlutasamtaka sveitarfélaga, á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Markmiðið með samningunum er að styrkja sóknaráætlanir landshlutanna þriggja með sérstöku framlagi og treysta þannig byggð á tilteknum svæðum.
Heildarframlag ráðuneytisins til samninganna er 107 milljónir króna og byggist fjárveitingin á stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017 sem og áherslum löggjafans um að hlúa skuli sérstaklega að svæðum sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.
Í samningum um sóknaráætlanir 2015-2019 skuldbinda samningsaðilar sig til að vinna að því að auka ráðstöfunarfé til samninga á samningstímanum og er markmið viðaukasamninganna að styrkja sóknaráætlun viðkomandi landshluta með sérstöku framlagi í tengslum við sérstakar áherslur landshlutanna.
Norðurland vestra fær 14 milljónir í sinn hlut. Byggist viðaukasamningurinn við sóknaráætlun Norðurlands vestra á áherslum sóknaráætlunar 2015-2019 fyrir landshlutann og lýtur að eftirfarandi verkefnum:
- Stuðningur við áætlunarflug í tilraunaskyni milli Reykjavíkur og Sauðárkróks.
- Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna – hersetan í Hrútafirði.
- BioPol á Skagaströnd.
- Textílsetur Íslands á Blönduósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.