Viðskiptahraðall fyrir nýjar hugmyndir og fyrirtæki í ferðaþjónustu
Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall sem er sniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring.
Árlega eru tíu fyrirtæki valin til þátttöku og fá þau aðgang að fullbúnu skrifstofurými meðan á verkefninu stendur. Þar fá þau kost á að njóta fræðslu og þjálfunar og þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila á sviði ferðaþjónustu og annarra sérfræðinga og stjórnenda þeim að kostnaðarlausu.
Svava Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups, hvetur norðlensk fyrirtæki til að sækja um þátttöku í verkefninu. Hún segir að verið sé að leita að frumkvöðlum með afþreyingar- og tæknilausnir sem og lausnir sem styrkja innviði ferðaþjónustunnar.
Umsóknarfrestur er til 11. desember. Haldinn verður kynningarfundur á Hótel KEA á Akureyri á mánudaginn í næstu viku, 6. desember, kl. 12:00-13:00. Úr hópi umsækjenda verða valin tíu fyrirtæki til þátttöku en tvö síðustu ár voru tvö af þessum tíu fyrirtækjum af Norðurlandi.
Hraðallinn hefst 15. janúar og fer fram í Reykjavík. Sótt er um þátttöku á vefsíðu verkefnisins www.startuptourism.is. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar á Facebooksíðu verkefnisins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.