Viðurkenning til Geststofunnar
Á hverju hausti blæs Markaðsstofa Norðurlands til uppskeruhátíðar fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi. Var hátíðin í ár haldin um nýliðna helgi. Við það tækifæri hlaut Gestastofa Sútarans viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu í ferðaþjónustu.
Auk þessa hlaut Sveinn Jónsson í Kálfsskinni viðurkenningu fyrir áratuga starf í ferðaþjónustu á Norðurlandi og Erlendur Bogason hjá köfunarmiðstöðinni Sævör fékk viðurkenningu fyrir áhugaverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi.
„Markaðsstofa Norðurlands blæs á hverju hausti til uppskeruhátíðar fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi. Er þá ferðast saman um ákveðin svæði á Norðurlandi og ferðaþjónustuaðilar á því svæði sóttir heim, þar sem kollegar þeirra fá flottar kynningar á starfsseminni í viðkomandi fyrirtækjum.
Ferðast er um allan daginn og svo endað á gala kvöldverði þar sem veittar eru viðurkenningar, svo er dansað frammá nótt. Þetta eru einstaklega flottar og skemmtilegar ferðir og góður grundvöllur fyrirferðaþjónustufólk að koma saman og kynnast betur og hafa gaman saman,“ sagði Sigríður Káradóttir, framkvæmdastjóri Gestastofu Sútarans í samtali við Feyki.
