Ég myndi vilja fara á Bítlana / EINAR JÓNS

Einar Örn Jónsson (1975) ólst upp á Blönduósi en býr nú í Reykjavík. Hljóðfæri Einars eru píanó eða hljómborð en það að vera þátttakandi í Í svörtum fötum ævintýrinu segir hann kannski ekki hafa verið afrek en það hafi verið ótrúlega skemmtileg upplifun.

„Ég hef líka verið svo heppinn að fá að spila með mörgum af bestu tónlistarmönnum landsins. En stoltastur verður maður af að heyra lögin sín í útvarpinu. Ætli Jólin eru að koma sé ekki mesta afrekið!“

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég er hrifnastur af tímabilinu 1965 – 1980. Þarna kemur poppið í allri sinni dýrð. Bítlarnir, ELO, ABBA, Queen, Elton John, Billy Joel, Hljómar, Trúbrot, Bo, Stuðmenn o.s.frv.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Mér finnst alltaf gaman að  heyra nýja íslenska tónlist – sérstaklega þegar hún er flutt á móðurmálinu. Amabadama, DJ flugvél og geimskip og Ylja koma upp í hugann. Stelpurnar eru að koma sterkar inn.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Við áttum ekki plötuspilara og hlustuðum mest á útvarpið, gömlu Gufuna þangað til Rás 2 fór að nást á Blönduósi. En ég setti mjög gjarnan annað hvort bláu eða rauðu spóluna með Bítlunum í tækið, stillti upp eldhúskollum og trommaði með á þá með skeiðum.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég hef aldrei verið mikill plötusafnari. Mig minnir að það hafi verið „Milljón á mann“ með Páli Óskari og Milljónamæringunum árið 1994. Keypt í einhverju flippi í Fríhöfninni eftir afar hressandi útskriftarferð verðandi MA stúdenta.

Hvaða græjur varstu þá með? Ætli ég hafi ekki bara átt ferðageislaspilara ... en Tryggvi meðleigjandi minn átti flottar græjur þar sem Blackhole Sun með Soundgarden var blastað allan veturinn.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ég tóna eins og prestur einhverja vitleysu og hlusta á reverbið.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það þarf nú líklega meira en eitthvað lag til að koma mér úr jafnvægi.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Ég gæti sagt Gente di mare og Nína en stundum fá lög sem mér finnst mjög góð minni athygli eins og I‘m not afraid to move on (Noregur 2003) og Aldrei segja aldrei (2012)

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Queen live á Wembley 1986.

 Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Eyrun eru venjulega dálítið þreytt á sunnudagsmorgnum eftir gigg kvöldið áður þannig að það verður að vera eitthvað þægilegt – kannski eitthvað gott með Joseph Haydn.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi vilja fara á Bítlana í Royal Albert Hall og taka alla sem ég þekki með mér. Kannski ekki raunsætt en góður draumur.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Það væri gaman að vera hljómborðsleikari Alice Cooper því hann er svo mikill golfari. Ferðast um heiminn, spila golf á daginn og gigg á kvöldin. Gæti verið verra.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það myndi vera Sgt. Peppers með Bítlunum.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)
More than a feeling
– Boston
All about that bass – Meghan Trainor
Gaia – Amabadama
Lady lady lady - Joe Esposito
Ávanabindandi – Ingó og Veðurguðirnir (óútkomið)
Himinn og jörð – Gunnar Þórðar/Björgin Halldórs

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir