Vinsælar Vís húfur

„Við erum ákaflega ánægð með viðtökurnar á húfunum og stolt af að taka þátt í að stuðla að auknu öryggi yngstu vegfarendanna með þessum hætti,“ segir Sigurbjörn Bogason þjónustustjóri VÍS á Sauðárkróki. Þar vísar hann til 700 skínandi húfa sem gefnar hafa verið á skrifstofunni undanfarnar vikur.

Þetta er þriðja árið í röð sem VÍS býður viðskiptavinum með F plús tryggingu að næla sér svona glaðning. „Upplagið er á þrotum en við Gígja höfum deilt út fleiri hundruð húfum undanfarnar vikur í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. Það er dágott því miðað við hina margfrægu höfðatölu skákum við íbúum flestra annarra landshluta,“ segir Bubbi kankvís.

„Það er alltaf gaman að fá þessa ungu gesti í heimsókn. Ég vil þó brýna fyrir bæði börnum og fullorðnum að húfurnar koma ekki í stað hefðbundinna endurskinsmerkja heldur eru þær góð viðbót. Með endurskini sjáumst við fimm sinnum fyrr en ella í myrkrinu.“

Fleiri fréttir