Reiðkennsla eflist – réttindi verða til - Kristinn Hugason skrifar

Frá fyrsta eiginlega reiðnámskeiðinu sem haldið var á Íslandi, fór það fram í nýbyggðu reiðgerði hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík í mars 1971. Kennarar voru Walter Feldmann eldri og yngri og þeim til aðstoðar Ragnheiður Sigurgrímsdóttir menntaður reiðkennari frá Þýskalandi og í forystusveit FT á fyrstu árunum, á myndinni eru Feldmann eldri og Ragnheiður ásamt hluta þátttakenda. Mynd úr safni SÍH, ljm.: Frifþj. Þorkelss.
Frá fyrsta eiginlega reiðnámskeiðinu sem haldið var á Íslandi, fór það fram í nýbyggðu reiðgerði hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík í mars 1971. Kennarar voru Walter Feldmann eldri og yngri og þeim til aðstoðar Ragnheiður Sigurgrímsdóttir menntaður reiðkennari frá Þýskalandi og í forystusveit FT á fyrstu árunum, á myndinni eru Feldmann eldri og Ragnheiður ásamt hluta þátttakenda. Mynd úr safni SÍH, ljm.: Frifþj. Þorkelss.

Lengi vel var það svo að álitið var að hestamennskuhæfni væri meðfædd; sumir væru bornir reiðmenn en aðrir jafnvel klaufar og yrðu ekki annað. Vissulega er það svo að þeir sem ætla að ná færni á þessu sviði sem öðrum þurfa að búa yfir áhuga og elju og ákveðnum líkamlegum forsendum en að því gefnu gildir hið fornkveðna: Æfingin skapar meistarann.

Þrátt fyrir þetta var þó snemma farið að birta ýmsar leiðbeiningar og fræðslu í ritgerðum og jafnvel bókum hér á landi til að auka þekkingu á meðferð og tamningu hesta. Fyrirmyndir að slíku voru til erlendis, jafnvel í fornöld. Hvað kunnust þessara íslensku bóka frá fyrri tíð er bókin Hestar eftir Theodór Arnbjörnsson frá Ósi, fyrsta ráðunaut Búnaðarfélags Íslands sem hafði hrossaræktina sem megin starf, bókin kom út hjá félaginu árið 1931 og hefur síðan verið endurútgefin. Bókin hefur víðtæka skírskotun en í henni er að finna mikla andagift, enda var Theodór óvenju ritfær maður eins og önnur bók hans, Sagnaþættir úr Húnaþingi, sem út kom að honum látnum árið 1941, ber með sér, þar er m.a. að finna frásöguþáttinn Um Þingeyrarfeðga og kemur reiðmennskusnilld Jóns Ásgeirssonar á Þingeyrum mikið við sögu.

Lokaorð Hesta gefa frábæra sýn á þroskað viðhorf til tamningar hrossa, þau hljóma svo: „ .., en tamningin er það, að fá hrossið til að vilja það, sem húsbóndinn vill. Þá er hrossið orðið það, sem það á að verða: Vinur mannsins og félagi, hjálp mannsins og öryggi, gleði mannsins og metnaður, því það vitnar um, hvílíkur maðurinn er. – Það er kvarðinn sem mælir alla rétt.“ (bls. 385 í téðu riti).

Fyrsti ráðunauturinn, Theodór, var hestamaður sjálfur, þó svo engar sérstakar sagnir séu til, höfundi allavega kunnar, um reiðmennsku hans e.þ.h., hitt er að hann var í miklum tengslum við stórkunna hestamenn þeirrar tíðar, s.s. Ásgeir Jónsson frá Gottorp, og upprunninn í íslenskri sveit. Sá sem tók við af Theodóri, Gunnar Bjarnason, var alls enginn hestamaður hvorki af eðli né uppruna og enginn hefur tekið skýrar af öll tvímæli þar um en hann sjálfur. Hitt er að hann gaf sig fljótlega eftir að hann hóf störf mjög að hestamönnum, s.s. Boga Eggertssyni, sem ítrekað hefur komið við sögu í greinum þessum, auk þess sem Gunnar hafði þá sýn að hlutina mætti læra hefðu menn vit til, áhuga og lágmarks hæfileika.

Gunnar hafði þannig forgöngu um það strax árið 1951 að fyrsti vísir að reiðskóla varð til við Bændaskólann á Hvanneyri, þar sem Gunnar kenndi ýmis búfjárræktarfög jafnhliða ráðunautsstörfum, sjá nánar í ritinu Ættbók og saga íslenzka hestsins á 20. öld, II. bindi, útg. BOB á Akureyri 1979, bls. 167 til 211: Reiðskóli úr íslenzkri hefð. Ekki er nokkur vafi á að frumkvæði Gunnars hafði mikil áhrif og fjölmargir þeirra sem hug höfðu á að leggja fyrir sig hestamennsku fóru gagngert á Hvanneyri eða Hóla til að ljúka búfræðiprófi. Eftirsóttur verðlaunagripur fyrir árangur í tamningum varð svo hin svokallaða Morgunblaðsskeifa, fyrst veitt á Hvanneyri árið 1957 og nokkru síðar líka á Hólum (sama heimild bls. 178).

rið 1953 kom svo út hjá LH bókin Á fáki – kennslubók í hestamennsku, höfundar Gunnar Bjarnason og Bogi Eggertsson. Í þessu sambandi má þó ekki sleppa að nefna höfundarverk Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp en árið 1946 kom út hjá bókaútgáfunni Norðra á Akureyri bókin Horfnir góðhestar, fyrra bindi, árið 1948 kom svo síðara bindið út og 1951 bókin Samskipti manns og hests. Hér er um að ræða stórmerk rit sem gefa mikilvæga innsýn í stöðu gæðingakosts á Íslandi og þróun reiðmennsku.

Breytt viðhorf til menntunar í hestamennsku
Árið 1960 setti hestamannafélagið Fákur upp sumarreiðskóla fyrir börn með fyrsta menntaða reiðkennara landsins, Rosmarie Þorleifsdóttur. Árið áður hafði Léttir á Akureyri hafið slíka starfsemi, fyrst fyrir börn félagsmanna þar sem alvanur hestamaður leiðsagði. Skólinn varð svo almennur eftir að Æskulýðsráð Akureyrar kom inn í stafsemina.

Þó sjá megi af framansögðu að ýmislegt hafi verið gert og skilningur farið vaxandi á að hestamennsku mætti læra eins og hvert annað fag, væri áhugi og grunnhæfni til staðar, fóru hjólin fyrst að snúast fyrir alvöru með tilkomu FT árið 1970 og jafnhliða stórauknum utanferðum knapa, einkum til Þýskalands, gagnkvæmum heimsóknum og námskeiðahaldi. Við stofnun FT var kapp lagt á að fá inn í félagið þá fáu menn, marga hverja afburðareynda, sem störfuðu við tamningar en árið 1972 var tekið upp kerfi inntökuprófa í félagið og í framhaldinu búið til stigskipt réttindakerfi innan þess; þannig var fyrsta reiðkennaranámskeið FT haldið árið 1976 með prófi að því loknu, þeir sem náðu prófinu hlutu réttindi sem B reiðkennarar FT. Árið 1978 náði Reynir Aðalsteinsson svo fyrstur manna þeim áfanga að geta kallast tamningameistari FT, nokkrir áttu svo eftir að bætast í þann hóp síðar en hann er enn í dag afar fáskipaður.

Árið 1981 var Hólaskóli endurreistur, eftir að eiginlegt skólahald hafði legið niðri í tvo vetur. Lykillinn að endurreisninni var án nokkurs vafa bygging nýs hesthúss á staðnum sem hófst 1980 og var tekið í notkun árið 1982, en er hér var komið sögu voru flestar byggingar staðarins mjög farnar að láta á sjá, gengi skólans hafi mjög þorrið og umsóknum um skólavist fækkað mjög. (Pétur Bjarnason, Biskupsstóll og bændaskóli, Bókaútgáfan á Hofi 1991, bls. 23 og 26). Við endurreisnina var lögð mjög aukin áhersla á hestamennsku í búfræðináminu, þó enn þá væri haldið sig við almennt búfræðinám, skv. gildandi búfræðslulögum. Meira verður vikið að þætti Hólaskóla síðar.

Niðurlagsorð
Réttindakerfi FT studdist vitaskuld ekki við nein lög önnur en félagsins sjálfs, þannig að hver sem er gat tekið að sér eftir sem áður að temja hesta fyrir sjálfan sig eða aðra eða segja fólki til, svo sem sjálfsagt er. Hitt er að hestamannafélögin höfðu forgöngu um að fá oftar en ekki aðila til námskeiðahalds sem höfðu reiðkennararéttindi félagsins upp á vasann. Tvennt ávannst með þessu; fleirum og fleirum varð ljóst að læra mætti til verka í hestamennsku og bæta sig á því sviði eins og öðrum og starfandi reiðkennarar FT þjálfuðust upp. Árið 1988 hlutu svo fyrstu A reiðkennarar FT sín réttindi, þeir voru: Benedikt Þorbjörnsson, Eyjólfur Ísólfsson, Reynir Aðalsteinsson og Sigurbjörn Bárðarson, allt jafnframt tamningameistarar FT og lengi vel þeir einu í þeim hópi.

Í næstu grein verður haldið áfram þar sem hér er frá horfið og fjallað um uppbyggingu náms og íþrótta innan hestamennskunnar.

Kristinn Hugason
forstöðumaður
Söguseturs íslenska hestsins.

Áður birst í 14. tbl.  Feykis 2021

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir