Skemmtilegur smali í Mótaröð Þyts

Þann 25. mars var keppt í smala í Mótaröð Þyts þar sem Þytsfélagar skemmtu sér einstaklega vel, bæði áhorfendur og keppendur. Nokkur tími hefur liðið síðan keppt var í þeirri grein hjá félaginu og og segir Kolbrún Indriðadóttir að þarna hafi sannast, líkt og Elvar Logi Friðriksson hafi orðað vel á Facebook síðu sinni,: „Sama hvað spekingar segja um smala þá er það mín skoðun að þetta er frábær grein sem hentar ungum sem öldnum eins og sannaðist í gærkvöldi.“

Kolbrún segir að brautin hafi verið sett upp viku fyrir mót og öll hross í hverfinu æfð á uppbyggilegan hátt fyrir keppnina. Keppendur voru á aldrinum 5 til 78 ára og mættu margir áhorfendur og minnti kvöldið á stemminguna þegar liðakeppnin stóð sem hæst.

Aðeins um Smalann:

Smalinn dregur nafn sitt af einu mikilvægasta hlutverki íslenska hestsins frá örófi alda. Eiginleikar sem prýða góðan smala og smalahest eru nauðsynlegir ef árangur á að nást, þetta eru þættir eins og hraði, kjarkur, fimi og snerpa.

Riðin er braut sem mörkuð er keilum sem ná upp á síður hests. Keilurnar skulu vera þannig útbúnar að þær falli við litla snertingu. Árangurinn ræðst af brautartíma og felldum keilum. Reiknireglur eru þær sömu og í tímabraut torfærunnar.

Smalinn er hrein grein í þeirri merkingu að árangurinn er mælanlegur án frávika, þ.e. hann ræðst eingöngu af tíma og felldum keilum en ekki mati dómara. Dómarar eru engu að síður til staðar og meta hvort knapinn fari gegnum öll hlið, telja felldar keilur og hafa eftirlit með reiðmennsku knapa líkt og í öðrum keppnisgreinum.

Úrslit mótsins er hægt að finna HÉR

Hér fyrir neðan má sjá vídeó af kvöldinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir