Ítalskur pastaréttur og panna cotta

Fanney Birta. Mynd aðsend
Fanney Birta. Mynd aðsend

Matgæðingur í síðustu viku var Fanney Birta Þorgilsdóttir en hún er fædd og uppalin á Hofsósi. Fanney hefur búið í Reykjavík síðustu fimm ár en flutti á heimaslóðirnar með manninum sínum, Fandam, síðasta haust. Þau eiga saman fjögurra mánaða strák sem heitir Ísak. „Okkur finnst einstaklega gaman að borða ítalskan mat og þegar við fáum fólk í matarboð slær þessi pastaréttur alltaf í gegn, bæði hjá börnum og fullorðnum.“ 

AÐALRÉTTUR
Ítalskur pastaréttur
    500 g Rigatoni pasta
    góð ólífuolía
    1 laukur, smátt saxaður
    2 hvítlauksrif, smátt söxuð
    1 tsk. þurrkað rósmarín
    2 krukkur hakkaðir tómatar
    2 msk. tómatpaste
    2 msk. rjómi
    salt og pipar
    1 kúla ferskur mozzarella ostur
    rifinn parmesan ostur eftir smekk

Aðferð: Hitið ofn í 220°C með blæstri. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Á meðan pastað er að sjóða, hitið ólífuolíu á pönnu og leyfið lauknum og hvítlauknum að malla í olíunni við meðalhita í um fimm mínútur. Kryddið með rósmarín, salti og pipar. Hellið 2 dl af vatni út á og leyfið að sjóða niður um helming. Bætið þá tómötunum og tómatpaste út á ásamt rjóma. Smakkið til með salti og pipar. Leyfið þessu að malla í u.þ.b. tíu mínútur. Hellið vatninu af pastanu. Setjið það í eldfast mót. Hellið tómatasósunni yfir og blandið saman. Klípið mozzarella ostinn í litla bita yfir pastað og rífið smá parmesan ost og setjið yfir. Bakið í tíu mínútur.

EFTIRRÉTTUR
Panna cotta
    5 dl rjómi
    3 dl nýmjólk
    100 g sykur
    5 gelatín blöð
    1 stór vanillustöng

Jarðarberjasósa:
    700 g jarðarber

    1/2 krukka ósæt

    jarðarberjasulta

    100 ml vatn

Aðferð: Byrjið á því að leggja gelatín blöðin í kalt vatn í nokkrar mínútur svo þau verði mjúk. Hellið rjómanum í pott ásamt nýmjólkinni og hitið. Næst er að kljúfa vanillustöngina og hreinsa út fræin. Setjið þau saman við rjómann og mjólkina og hrærið vel. Hitið að suðu, lækkið undir og látið standa í nokkrar mínútur til að vanillan bragðbæti rjómann eins mikið og unnt er. Hrærið svo gelatín plötunum saman við þannig að þær leysist alveg upp í vanillurjómanum. Látið svo kólna í smá stund og hellið svo yfir í mót eða glös. Setjið í kæli í fjórar klukkustundir svo að búðingurinn nái að stífna. Næst eru það jarðarberin. Skerið þau og saxið gróflega og setjið í pott með vatninu. Hleypið upp suðunni. Bætið sultunni saman við og sjóðið niður (í 20-30 mínútur við lágan hita) þannig að úr verði þykkur grautur. Látið kólna aðeins og hellið honum svo í gegnum sigti. Setjið svo sultuna varlega ofan á búðinginn og þá á bara eftir að skreyta með sneiddu jarðarberi og njóta.

Fanney skorar á Margréti Árnadóttur. „Alveg frá því að við vorum litlar var hún alltaf að baka og ég veit að hún mun koma með frábærar uppskriftir sem næsti matgæðingur,“ segir Fanney.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir