Eina skiptið á æfinni sem ég var kallaður helvítis villimaður

Hver er maðurinn? Þórhallur Ásmundsson.

Hverra manna ertu? Þegar ég kom á Krókinn vorið 1974 og fór veturinn eftir í lokabekk Iðnskóla Sauðárkróks, sagði Árni Þorbjörnsson dönskukennari, þarna er nýtt andlit, ert þú Skagfirðingur? Nei svaraði ég, ég er Fljótamaður. Frá Austari-Hóli í Flókadal, foreldrar Ásmundur Frímannsson og Ólöf S. Örnólfsdóttur nýlega látin.

Árgangur? 1953

Hvar elur þú manninn í dag? Á Akranesi.

Fjölskylduhagir? Í sambúð með Sólveigu Höllu Kjartansdótur frá Tjörnum í Sléttuhlíð.

Afkomendur? Ásmundur sjúkraliði á Akureyri og Ólöf Arna á sambýlinu Felltúni á Sauðárkróki.

Helstu áhugamál? Íþróttir og útivist og svo vinnan.

Við hvað starfar þú? Blaðamaður á Skessuhorni.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ..................... þegar ég er komin norður fyrir Þverárfjallið í Laxárdalinn, set rúðuna í bílnum aðeins niður og finn nettan ísbjarnarilm. Það er heima.

Það er gaman............til að mynda þegar maður sér og heyrir eitthvað virkilega skagfirskt.

Ég man þá daga er...........við vorum á leiðinni í einhvern útileikinn í fótboltanum Tindastólsmenn. Palli framarlega í rútunni að fræða okkur um ýmislegt sem fyrir augu bar á leiðinni, fjöll og fiðrildi eins og Svanur hefði sagt. Ofvirkir unglingar aftar í rútunni sem vildu ná athyglinni, Birgir Rafn Rafnsson.

Ein gömul og góð sönn saga........Síðsumars fyrsta sumarið á Króknum, 1974. Við vorum búnir að vera virkilega slakir í deildinni Skagfirðingar. Unnum reyndar síðasta leik á móti Ólafsfirðingum á Króknum. Nú var komið að undankeppni fyrir landsmót á Varmalandi í Borgarfirði. Palli Ragnars bað þá um að taka nesti í ferðina, Sigurbjörn Garðarsson markmann sem vann við að saga niður kódilettur í sláturhúsinu og Jón Gunnar Valgarðsson sem var í samlaginu. Þegar við vöknuðum á laugardagsmorni í steikjandi hita í skólastofu á Varmalandi, rann blóðpollur úr einu horninu úr kódilettunum hjá Bjössa og í miðjum salnum rann mysan úr skyrinu hjá Jóni Gunnari.
Við vorum liðfáir á Varmalandi og bjuggumst ekki við stórum hlutum, þótt reiknað væri með sigri Skagfirðinga á Borgfirðingum, það var samkvæmt bókinni. Við lögðum af stað 11, en tókum Villa Egils, seinna alþingismann, upp í rútuna þar sem hann var að vinna á skurðgröfu fram í firði. Leikið var gegn erfiðari andstæðingunum þarna á laugardeginum, Snæfellingum en það voru Víkingar frá Ólafsvík sem voru að rúlla upp gömlu 3. deildinni þetta sumar. Við bjuggust því ekki við miklu úr þessum leik, en annað kom á daginn. Það kom fljótlega í ljós að það var rétt ákvörðun að taka Villa með þótt hann væri æfingalaus. Rúnar Björns meiddist flótlega í leiknum, þannig að Villi fór í bakvörðinn í hans stað.
Til að gera langa sögu styttri gekk leikurinn ágæglega og var með þeim allar eftirminnilegu. Hitinn var gríðarlegur um 25 gráður, en sannkallað markaregn. Liðin skiptust á að skora. Við vorum 2:3 undir þegar sex mínútur voru eftir, en þær dugðu okkur til að gera tvö mörk og vinna leikinn, úrslitamarkið á lokamínútunni. Það var í eina skiptið á æfinni sem ég var kallaður helvítis villimaður. Það gerði Gylfi Þór Gíslason þjálfari Víkinganna þegar honum mistóks að skriðtækla mig áður en ég gaf stoðsendinguna. Gylfi hvæsti á mig milli samanbitna tannanna, var svekktur, enda sagði hann fyrir leikinn, “strákar við tökum þetta bara létt.” 

Spurt frá síðasta viðmælanda....................  hvað getur þú ímyndað þér að þú sért búinn að spila marga fótboltaleiki um æfina og með hvað mörgum liðum?

Svar............Ábyggilega vel á fjórða hundrað með öllum æfingaleikjum og vináttuleikjum eins og þeir voru kallaðir í þá daga. Þar af um helminginn með Tindastóli. Liðin gætu verið svona átta eða níu, þar með talið Fljótamenn, sameinlegt lið með Hofsósi um fermingaraldurinn, og sameiginlegt lið handanvatnamanna í deildinni þegar ég var 17 ára.

Hvern villt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn.............Stefán Ólafsson númer 7, fiskeldismaður á Öxnalæk, Hveragerði.
  
Spurningin er..................Reyndir þú einhvern tímann að fá aflátt á “englendingnum” eða einhverri æfingu hjá Danna, eftir erfiðan dag í símavinnuflokknum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir