Ekkert helvítis pláss fyrir neina Maríu Carey hérna í bílnum

Óli (til hægri) í Singapore

Hver er maðurinn

? Óli Sigurjón Barðdal Reynisson

 

 

Hverra manna ertu? Sonur Reynis Barðdal og Helenu Svavarsdóttir

 

Árgangur? 1977

 

Hvar elur þú manninn í dag? Ég hef verið á Sauðárkróki síðan í nóvember að kenna í Árskóla. En er farinn aftur út til Árósa þar sem ég er að kenna golf.

 

Fjölskylduhagir? Er í sambúð með Pernille Sabroe.

 

Afkomendur? Ja ég held það sé enginn??

 

Helstu áhugamál? Golf, körfubolti og enski boltinn.

 

Við hvað starfar þú? PGA golfkennari í Árósum

 

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

 

Heima er .....................best

 

Það er gaman.........................Mæta í bakaríið til Róberts, hann hefur alltaf eitthvað ótrúlega magnað að segja, þá aðallega um Liverpool.

 

Ég man þá daga er.......................Alli Munda varð brjálaður, fyrir að hafa tapað fyrir mér í þriggjastiga keppni. (hann man eflaust ekki eftir því!)

 

Ein gömul og góð sönn saga..................

 

Það var fyrir nokkrum árum að ég og Jón Brynjar, stór vinur og snillingur, vorum á rúntinum á Sauðárkróki, svona eins við gerðum mikið af þegar að við vorum 17-18 ára. Jón var nýbúinn að kaupa sér bíl og var svolítið stressaður og hafði einhverjar áhyggjur af aksturslagi bílstjórans. Við höfðum fengið Davíð Rúnarsson, sem þá var nýkominn með bílpróf og ekki alveg búinn að læra á kúplinguna og bensíngjöfina, til þess að rúnta aðeins með okkur á bílnum hans Jóns. En í þá daga var aðal málið að rúnta með fullan bíl af fólki. Þegar að mér var farið að leiðast aftur í fór ég að nöldra yfir því hvort við ættum ekki að bjóða einhverjum með okkur á rúntinn, fá fleiri í bílinn. Jón var nú ekki alveg á sama máli og vildi helst einbeita sér að akstri Davíðs. Í framhaldi af umræðunni um fjölda einstaklinga í bílnum fórum við svo að skipta okkur af því hvaða tónlist átti að spila í bílnum og var það ekki til þess að bæta um betur, Jón orðinn ansi pirraður á yfirgangnum í okkur. En þetta árið hafði Mariah Carey verið að slá í gegn og vildu einhverjir í bílnun endilega hlusta á hana. Það vildi svo vel til að ég átti þann disk heima og segi sí svona við Jón „förum heim og náum í Maríu Carey“, tek það fram að framburðurinn hefur sennilega ekki verið sá besti,  Jón varð þá alveg brjálaður snéri sér við í sætinu  og sagði:  „það er ekkert helvítis pláss fyrir neina Maríu Carey hérna í bílnum.“ 

 

 

 

Spurt frá síðasta viðmælanda....................  Hvort er líklegra að Danir fái að njóta nærveru þinnar næstu árin eða Íslendingar og þá jafnframt Skagfirðingar og nærsveitamenn?

 

Svar: Ég var farinn að huga að því að flytja aftur heim, en svo þegar að þetta skemmtilega ástand hérna á íslandi brast á, ákvað ég að seinka heimförinni um einhvern tíma. Verð allavegana hérna úti eitt ár í viðbót og svo verður þetta endurskoðað. En ég er nú alltaf á leiðinni heim í Skagafjörðinn spurningin er bara hvernær það verður. Þar er best að vera.

 

 

 

Hvern villt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

 

Nafn............. Ómar Sigmarsson

 

Spurningin er................Ætlar þú að búa í Norge allt þitt líf, eða eru þið farin að hugsa ykkur um heimkomu? Gætir þú ekki hugsað þér að flytja heim á Sauðárkrók og jafnvel taka við sem þjálfari meistaraflokks karla í körfunni?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir