Svefnpokinn allur útataður í tyggjói að innan

Hver er maðurinn? Sigríður Guðrún Sigmundsdóttir (Sigga Simma). 

Hverra manna ertu? Dóttir Guðlaugar Gísladóttur og Sigmundar Pálssonar (Laugu og Simma á Smáragrundinni).

 

Árgangur? Ég er svo heppin að tilheyra hinum frábæra árgangi 1959. 

Hvar elur þú manninn í dag? Ég bý í Reykjahlíð í Mývatnssveit og hef búið þar í 5 ár. 

Fjölskylduhagir? Ég er í sambúð með Baldvini Þór Jóhannessyni. 

Afkomendur? Við eigum soninn Daníel Örn, 18 ára og dótturina Mörtu Sif, 12 ára. Svo hef ég líka átt stjúpsoninn Elías Ásgeir frá því ég kynnstist Baldvini og er hann 28 ára, hann á tvö börn, 8 ára dreng og bráðum 1 árs dóttur, ömmubörnin mín. 

Helstu áhugamál? Mér er nú fjölskyldan alltaf hugleikin og finnst mér best að eyða tíma mínum með henni, einnig hef ég alltaf verið mikill lestrarhestur og nýjasta áhugamálið hjá mér núna (eins og svo mörgum öðrum) er að prjóna. Ég er líka svo heppin að starfa við eitt áhugamál mitt en það er að kenna, það veitir mér mikla ánægju. 

Við hvað starfar þú? Ég er kennari við Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit. 

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.  

  • Heima er .....................þar sem mér líður best.
  •  
  • Það er gaman.........................þegar ég hitti gömlu skólafélaga mína.
  •  
  • Ég man þá daga er........................við krakkarnir í vinahópi mínum á gagnfræðaskólaárunum gengum kvöldrúntinn okkar, fram og til baka, eftir Skagfirðingabrautinni og Aðalgötunni á Króknum.
  •  

Ein gömul og góð sönn saga..................Í skólaferðalaginu í 6. bekk fórum við austur í Þingeyjarsýslur og þeir Sighvatur Torfason og Björn Daníelsson fóru með okkur, enda höfðu þeir verið kennarar okkar þennan vetur. Við gistum í skólum og auðvitað sváfu stelpur og strákar ekki í sömu stofunni, ekki á vakt þeirra Björns og Sighvatar, ó nei. Þegar við gistum í Skútustaðaskóla í Mývatnssveit ákváðum við stelpurnar að nú skyldum við bíða þar til kennararnir væru sofnaðir og læðast inn til strákanna. Við háttuðum auðvitað og gerðum okkur tilbúnar fyrir háttinn og komum okkur fyrir í svefnpokunum. En eitthvað virðast kennararnir hafa grunað eða bara verið svona forsjálir því þeir settust inni í sitthvora stofuna þegar ró átti að vera komin á og kom Sighvatur inn til okkar stelpnanna. Ég man að ég hugsaði að hann hlyti bara að fara bráðum, það væri ekkert fyrir okkar að gera en bíða og þykjast sofna, hafa þolinmæði, hann hlyti að þurfa að sofa sjálfur. En þolinmæði Sighvatar var greinilega meiri en okkar því það næsta sem ég man eftir var þegar ég vaknaði daginn eftir og svefnpokinn minn var allur útataður í tyggjói að innan. Ég hafði verið með tyggjó þegar ég þóttist vera sofnuð og auðvitað sofnað með það. Þessi svefnpoki var ekki mikið notaður eftir þetta skólaferðalag. Þarna kom þekking kennaranna á nemendum sínum sér vel.

Ég má til með að segja líka frá því að þegar þeir Sighvatur og Björn skólastjóri kenndu sitthvorri deildinni í 6. bekk, voru kennsluaðferðir þeirra nokkuð ólíkar og kom það best í ljós þegar báðar deildirnar komu saman í stofunum tveimur á efri hæð Barnaskólahússins, þar sem rennihurðin var á milli. Ef verið var að undirbúa okkur fyrir próf og báðar deildirnar voru spurðar út úr réttu hinir prúðu nemendur Björns eins og t.d. Kalli, Öddi, Ingvi, Maja Bödda, Björg o.fl. upp hendur og biðu eftir að vera spurð en við sem vorum hjá Sighvati t.d. ég, Helga Dadda, Gurra, Guðbjörg o.fl. litum forviða á þessi viðundur úr hinni deildinni um leið og við flýttum okkur að koma svarinu frá okkur áður en einhver annar gerði það. Hinir stilltu krakkar hans Björns urðu yfir sig hissa á hve miklum hraða vitneskjan var veitt.

 

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Hvað gerir þú til að viðhalda þínu góða minni ?

(og endilega leiðréttu mig ef persónusagan er vitlaus þú mannst þetta betur en ég)

Svar............Auðvitað ætti ég að svara þessari spurningu með því að ég geri hitt og þetta eða geri ekki hitt og þetta til þess að viðhalda því en þar sem mitt góða minni er nú eiginlega eins og goðsögn, innan míns góða skólafélagahóps og það er einmitt það sem það er, goðsögn, þá verð ég auðvitað að reyna að standa undir því. Ég passa mig bara á því að segja frá því sem ég man og er nokkuð örugg um að er rétt munað og það eru ekki margir sem leggja í það að mótmæla mér einmitt vegna þessarar goðsagnarímyndar. En þið ættuð bara að vita hvað það er margt sem ég man bara alls ekkert. Nú er ég aldeilis búin að fletta ofan af mér, en hvað með það ég vinn það bara upp síðar J.

Magga mín ég held bara svei mér þá að þú farir bara nokkuð rétt með söguna um upprunann á  persónunni Möggu J.

 

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn.............Guðjón Ingvi Geirmundsson.

Spurningin er..................Ingvi minn, hvaðan er ananasinn eiginlega upprunninn og hvert er/var hlutverk hans?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir