Þögnin þá er ógleymanleg - Heimir Vilhjálmur Pálmason

Hver er maðurinn? Heimir Vilhjálmur Pálmason

Hverra manna ertu? Sonur Eddu Vilhelmsdóttur og Pálma Jónssonar, þau eru búsett á Sauðárkróki.

Móðurforeldrar: Vilhelm Jóhann Jóhannsson og Margrét Ingibjörg Jóhannsdóttir frá Litladalskoti í Tungusveit. Þau bjuggu æskuárin mín í Laugardal í Lýtingstaðahreppi.

Föðurforeldrar: Jón Pálmason og Arnfríður Jónasdóttir, amma bjó æskuárin mín á Þverá í Akrahreppi, afa sá ég aldrei, hann dó 12.ágúst 1955.

Árgangur? 1959

Hvar elur þú manninn í dag? Kópavoginum, Ekrusmára 12

Fjölskylduhagir? Í sambúð með Írisi Öldu skrifstofustjóra  á Kvíðameðferðarstöðinni.

Afkomendur? Ingólfur Pálmi fæddur 1976, Sigurður Dan fæddur 1981og Sunna Dögg fædd 1985.

Helstu áhugamál? Útivist, ferðalög og iðntölvuforritun

Við hvað starfar þú? Vélstjóri á Mánaberginu frá Ólafsfirði.

Veturinn 1978 til 1979 var ég háseti á Hegranesinu, þá var svo kalt að ég ákvað að fara í Vélskóla Íslands.

Ég hef verið aðalmaður í stjórn Vélstjórafélags Íslands frá árinu 2000, núna Félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Ég hef verið í samninganefnd félagsins fyrir fiskimenn síðan þá og er í nefndinni núna.

Ég hef verið og er einn af fulltrúum félagsins hjá Lífeyrissjóði Sjómanna, núna lífeyrissjóðnum Gildi.

 

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er………………… gott að vera.

Það er gaman……………………. þegar afa-strákarnir koma í heimsókn

Ég man þá daga…………………… Þegar við Jón Helgi smíðuðum okkur bát, hann var skírður Snarfari, sjóhæfni bátsins var í fullkominni mótsögn við það nafn. Þessi bátur var eiginlega fleki með stefni, fylltur með hvítu einangrunarplasti, mjög þungur  og ekki nokkur leið að hvolfa honum. Á þessum bát rérum við ótrúlega langt (Maggi þaðan koma kanski vöðvarnir). Einn veturinn þurfti lögreglan að hafa afskipti af útgerð Snarfara, hafís hafði rekið inná fjörðinn fagra og voru stórir jakar botnfastir nálægt landi, við Jón tókum uppá því að sigla með farþega út á stóran jaka gegn vægu gjaldi (túkall  minnir mig), við vorum búnir að fara nokkuð margar ferðir áður en lögreglan kom og það var komin löng röð, harka lögreglunnar var nú ekki meiri en svo að við fengum að sækja krakkana sem voru úti á ísnum.Báturinn hvarf einn daginn, jafn þungur og hann var,við Jón komumst að því mörgum árum seinna hvað um hann varð, fundum hann við ákveðið vatn.

Ein gömul og góð sönn saga………………

Einu sinni sem oftar lá leið okkar Jóns Helga út að Hegranesvita, þetta var í apríl trúlega páskafrí og skólinn ekki að tefja okkur. Ég man ekki nákvæmlega hverjir voru með í þessari ferð vegna þess að við fórum svo margar með mörgum. Við vorum allavega 4 í þessari ferð. Stutt innan við Naustavík (utarlega á vestanverðu nesinu) fundum við hrafnshreiður í bjarginu, við gátum auðvitað ekki látið það í friði, vildum sjá hvort krummi væri búinn að verpa, ég fer framaf gróna landinu útá aur-drullu og ætlaði að fikra mig að hreiðrinu, undir aurnum var svell og drullulagið lagði af stað framaf brúninni með mig, ég gat ekkert gert, sem betur fer þá var klettabrúnin gróin og þar stöðvaðist skriðan,ella væruð þið ekki að lesa þetta. Við fundum band og það var bundið utanum Jón Helga og hann fer niður en við hinir röðuðum okkur á bandið uppi á brúninni, hann man þetta líklega betur en ég en eitt er víst að það brotnaði undan honum og hann hékk í lausu lofti um stund, þá þurftum við strákarnir heldur betur að taka á (Jón var töluvert léttari þá, samt þungur). Mig minnir að það hafi verið gerð önnur tilraun, annar látinn síga niður (Steini Hauks?) Á heimleiðinni þá er togast á með spottann, hann hrökk í sundur svo fúinn var hann, þögnin þá; er ógleymanleg. Allar enduðu nú ferðirnar vel, oftast fyrir eigin ágæti.  Við vorum öflugir strákar eins og Maggi segir, en í þessari ferð  vorum við heppnir, það hafði ekkert með kraftana að gera, líklega er ég að skrifa um hana þess vegna.

 

Spurt frá síðasta viðmælanda……………….. Í frímínútunum í gaggó voru strákarnir, eins og svo oft, eitthvað að hnoðast eða slást (alltaf samt í þokkalega góðu).   Ekkert þýddi að abbast upp á Heimi Pálmason eða Jón Helga Þórsson, þeir voru svo öflugir.   Heimir, ert þú ennþá svona hraustur ?

Svar…………Í huganum já ....... en það er komin hlíf yfir magavöðvana og gat á hárið á mér!

 

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn…………. Jón Helgi Þórsson, árgangur 1959.

Spurningin er……………… Jón, hvern sendum við niður á eftir þér? og voru kominn egg hjá krumma?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir