Árni Eggert nýr þjálfari mfl. kvenna Tindastóls

Ingólfur Jón Geirsson, formaður körfuknattleiksdeildar og Árni EggertHarðarson, nýr þjálfari kvennaliðs Tindastóls. Mynd: PF.
Ingólfur Jón Geirsson, formaður körfuknattleiksdeildar og Árni EggertHarðarson, nýr þjálfari kvennaliðs Tindastóls. Mynd: PF.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls bauð í gær vildarvinum og árskorthöfum til spjallfundar og kynningar á nýráðnum þjálfara meistaraflokks karla, Baldri Ragnarssyni í Síkinu. Þá var upplýst að Árni Eggert Harðarson yrði næsti þjálfari mfl. kvenna og skrifað var undir tveggja ára samning við hann.

Vel var mætt á fundinn en áður en þeir Baldur og Árni voru kynntir til leiks var boðið upp á hamborgara og gos. Þeir Baldur og Árni voru ánægðir með mætinguna og sögðu hana sýna hve áhuginn er mikill í körfuboltasamfélaginu norðan heiða. Þeir voru sammála um að Tindastóll ætti ætíð að berjast á toppnum og er það sýn Árna að stelpurnar eigi heima í efstu deild.

Baldur þekkja margir en hann gerði garðinn frægan með liði Þórs Þorlákshöfn í vetur sem sló Stólana út í úrslitakeppni Dominosdeildar. Hann skrifaði undir þriggja ára samning en auk meistaraflokks þjálfun mun hann hafa yfirumsjón með styrktarþjálfun beggja meistaraflokka, kvenna og karla.

Á Facebooksíðu deildarinnar segir að Árni hafi áður þjálfað kvennalið Breiðabliks, karlalið Vængja Júpíters ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks ÍR í Dominosdeild karla síðustu ár. Einnig hefur Árni Eggert unnið mikið og gott starf fyrir Körfuknattleikssambandið.

Hægt er að gerast vildarvinur körfuknattleiksdeildar með því að fara inn á Nóra, greiðslu- og skráningarkerfi, á heimasíðu UMSS. Um 200 manns eru þegar skráðir vildarvinir en hægt er að velja um misháar fjárhæðir sem myndu renna til deildarinnar mánaðarlega, frá kr. 500 upp í 5000 krónur. Stjórn deildarinnar hvetur alla til að gerast vildarvinir.

Hér fyrir neðan má sjá viðtöl við þá Árna og Baldur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir