Fyrstu græjurnar kölluðust Fermingargræjurnar / BINNI ELEFS

Binni og Katrín Eva. AÐSEND MYND
Binni og Katrín Eva. AÐSEND MYND

Tón-lystin hringir nú dyrabjöllu í Hagalandi í Mosfellsbænum en þar býr Brynjar Elefsen (1979) en hann segir Mosó að verða nokkurs konar aflandssveitarfélag Króksara.Ég fæddist á Siglufirði en flutti á Krókinn sex ára. Föðurættin er sigfirsk og afsprengi síldarævintýrsins þar sem langafi flutti hingað frá Noregi. Móðurættin er skagfirsk og við köllum okkur Hjartarhyskið. Móðir mín er Bjarnfríður Hjartardóttir, dóttir Lillu og Hjartar á Hólmagrundinni,“ segir Brynjar fjallhress.

Hljóðfærið hans Brynjars er gítar en aðspurður um helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann: „Á mínum tiltölulega stutta tónlistarferli þá má helst nefna þegar við Sverrir Bergmann unnum Söngvakeppnina [framhaldsskóla] með lagið Án þín árið 2000. Síðan var hljómsveitin okkar, Daysleeper, valin nýliðar ársins á tónlistarverðlaunum FM957 árið 2002. Einnig stendur spilerí á þjóðhátíð og Airwaves upp úr. Svo má kannski nefna að í vikunni náði Án þín að fara yfir milljón spilanir á Spotify sem mér þótti mjög vænt um.“ Til áréttingar er rétt að geta þess að Brynjar svaraði Tón-lystinni um páskana og ríflega milljón spilanir á tuttugu ára gamallri íslenskri ábreiðu er sjaldséður hvítur hrafn á Spotify.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Nýja stuðningsmannalagið Tindastóll með snillingunum í Úlfur Úlfur og Sverri Bergmann. Það er húkkur í því – ánægður með það!

Uppáhalds tónlistartímabil? Það sem stendur helst uppúr er tónlistin á árunum 1990-2005 verð ég að segja. Myndi segja að Grunge-ið hafi mótað mig mikið sem síðan þróaðist yfir melódískari tónlist á borð við hljómsveitir eins Counting Crows, U2 og Dave Matthews band.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hef mjög gaman af vel útsettum ábreiðum, helst í acoustic eða jazz-skotnum útfærslum

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var ekki mikið spiluð tónlist heima þegar ég var yngri. Hinsvegar þá átti fósturpabbi minn ágætis plötusafn og ég spilaði mikið HLH-flokkinn þegar maður kom heim úr skólanum.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ef ég á að vera fullkomnlega hreinskilinn þá var það platan Niggaz4Life með NWA, þetta var strax eftir fermingu en Ice Cube og Dr. Dre voru þó ekki með neitt sérstaklega kristilegan boðskap á þessari plötu…

Hvaða græjur varstu þá með? Það var ekkert sérstök vörumerkjavitund í gangi á þessum tíma og þær voru kallaðar Fermingagræjurnar. Minnir samt að tegundin hafi verið AIWA.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Fékk lagið “Anna begins” með Counting Crows óþægilega mikið á heilann svona ca. 15 ára.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Þau eru nokkur, legg nöfnin ekki á minnið!

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það hefur sjaldan klikkað að henda Djamm í kvöld með Steinda á fóninn. Til vara væri það Simply the Best með Tinu Turner.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Helst einhverja Feel-good tónlist, Jack Johnson kæmi sterklega til greina.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Draumatónleikarnir væru Dire Straits uppá sitt besta á Wembley og ég myndi taka Knopfler-klúbbinn með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Það var góð blanda af Pearl Jam, Nirvana, Bush og Bon Jovi.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mark Knopfler opnaði nýja heima fyrir mig í gítarleik, þakka Atla frænda fyrir að kynna mig fyrir honum.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Af mörgum góðum þá set ég OK Computer með Radiohead í fyrsta sætið hér. Algjört tímamótaverk!

Ef þú ættir að velja eitt lag sem yrði spilað við útförina þína, hvaða lag væri það? Án þess að vera búinn að plana þetta mikið þá myndi ég segja My Way með Frankie. Heiðarlegt lag sem ég tengi vel við.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Sportify playlistinn minn er svolítið mengaður að krökkunum en með smá ritsjórn þá lítur þetta svona út:

Dance Monkey - Tones And I
Bad Guy - Billie Eilish
Lately - Charlie Winston
Take Me To Church - Hozier
Good People - Jack Johnson
Unattended - Daysleeper

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir