Stelpurnar með sigur í fyrsta leik

Stelpurnar sigurreifar að leik loknum á Ásvöllum. MYND: LAUFEY HARPA
Stelpurnar sigurreifar að leik loknum á Ásvöllum. MYND: LAUFEY HARPA

Kvennalið Tindastóls í knattspyrnu spilaði sinn fyrsta leik í Incasso-deildinni þetta sumarið síðastliðinn föstudag. Þær héldu í víking suður í Hafnarfjörð þar sem þær spiluðu við lið Hauka á Ásvöllum. Það er skemmst frá því að segja að Stólastúlkur gerðu sér lítið fyrir og lögðu heimastúlkur 0-1 og eru því komnar af stað í stigasöfnun sumarsins.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik og það var ekki fyrr en á 77. mínútu sem ísinn var brotinn. Þá tók Jacqueline Altschuld, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir lið Tindastóls, hornspyrnu frá vinstri og skrúfaði boltann inn að marki Hauka og lítil hætta virtist vera á ferð. Markvörður og vörn heimastúlkna misreiknaði boltann sem datt á marklínuna og í markið við mikinn fögnuð Stólastúlkna sem fóru glaðbeittar heim með öll stigin þrjú.

Sannarlega betri byrjun á Íslandsmótinu en fyrir tveimur árum hjá stelpunum þegar bíða þurfti fram í síðari umferð mótsins eftir fyrsta sigrinum í sömu deild. Næstkomandi sunnudag, 19. maí kl. 15:00 spila stelpurnar síðan á heimavelli gegn sterku liði FH sem gerði jafntefli við Skagastelpur í fyrstu umferðinni. Áður en að þeim leik kemur taka stelpurnar á móti Hömrunum frá Akureyri í Mjólkurbikar kvenna og fer sá leikur fram miðvikudaginn 15. maí. 

 

Allir á völlinn og áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir