Frábærlega skrifað leikrit með stórskemmtilegri persónusköpun og æðislegri tónlist - Myndaveisla

Síðasta sunnudag var Sæluvika Skagfirðinga sett með pompi og prakt, og endaði dagurinn venju samkvæmt á frumsýningu Sæluvikuleikrits Leikfélags Sauðárkróks. Sæluvikustykkið þetta árið er Fylgd – frumsamið leikrit eftir hann Guðbrand okkar Ægi Ásbjörnsson sem við Sauðárkróksbúar getum stolt sagt að við „eigum“. Það hefur náttúrulega verið í almannavitund í mörg ár að maðurinn er einn af auðlindum okkar Skagfirðinga, og olli hann svo sannarlega ekki vonbrigðum með þessu verki!

Leikritið sjálft er svolítið erfitt að flokka – þetta er ekki söngleikur, en þó leikverk með söngvum. Það er ekki farsi og ekki „full blown“ gamanleikur en þó með viss einkenni úr báðum flokkum. Þetta leikrit er í raun bara ljúf saga af almennu lífi í smábæ úti á landsbyggðinni sem kallar fram bros – og oft á tíðum hlátur- og sem vekur með manni samkennd. Sem fullgildur íbúi smábæjar á Íslandi gat ég fundið margt sem rímaði við mína upplifun af bæjarlífinu og hlýnaði mér um hjartarætur við það. Leikritið er skemmtilega skrifað, flétturnar fyndnar og karakterarnir alveg klassísk dæmi um týpur sem finna má í smábæ – fólkið sem allir þekkja.

Það er ekki hægt að ræða þetta leikrit án þess að tala sérstaklega um tónlistina í því! Allflest, en þó ekki öll lögin voru samin sérstaklega fyrir Fylgd, og sankaði Guðbrandur Ægir að sér einvalaliði í verkið, og er afraksturinn eftir því. Öll eru þau skemmtileg, vel skrifuð og falla fullkomlega inn í fléttu verksins. Þó eru nokkur lög sem heilluðu mig sérstaklega:  „Stelpan sem meikar það“ og „Það sem ekki má“ eftir Úlfar Haraldsson og Skarphéðinn Ásbjörnsson – það er eitthvað við þessi lög sem heillaði mig sérstaklega og eru þau mjög eftirminnileg í mínum huga. Lagið „Mjúkar mömmur“ eftir handritshöfund sjálfan inniheldur skemmtilega melódíu og fyndinn texta sem allar mömmur ná að tengja við. Heilt á litið er tónlistin í leikritinu flott, einstaklega fagmannleg og skemmtileg! Ég myndi kaupa diskinn!

En snúum okkur nú að þeim sem blása lífi í glæðurnar – leikurunum!

Í fyrsta skipti síðan ég fór að skrifa leikhúsgagnrýni fyrir héraðsfréttablaðið Feyki er ég í vandræðum… 25 leikarar skunda á einhverjum tímapunkti yfir sviðið, og ekki einn einasti sló feilnótu, hvorki í leik né söng! Allir skiluðu sínum karakterum af fagmennsku, gerðu það listavel, og ekkert endilega einhver einn sem skaraði framúr. Að því sögðu þá voru nokkrir sem fönguðu athygli mína umfram aðra og verð ég að útlista það nánar.

Elva Björk Guðmundsdóttir og Guðbrandur J. Guðbrandsson leika hjónin Guðmund og Björg, og blása svo sannarlega lífi í þau hjónakorn. Elva Björk og Guðbrandur eru náttúrulega flestum leikhúsunnendum á Sauðárkróki góðkunn, og þau voru svo sannarlega ekki á þeim buxunum að fara að valda vonbrigðum í þessu verki. Þau virðast bæði vera þeim eiginleikum gædd að komast að kjarna karaktersins hverju sinni sem skilar einstaklega fagmannlegri túlkun sem heldur áhorfandanum föngnum.

Mjög gaman var að sjá Sigurlaugu Vordísi aftur á fjölum Bifrastar í hlutverki Helgu. Hún einmitt syngur lagið „Það sem ekki má“ og gerir það svo fallega, og af svo mikilli innlifun að ekki er hægt annað en að elska það! Hún fær reyndar ekki mikinn tíma á sviðinu, en þann tíma sem hún fær nýtir hún vel og sýnir það svo sannarlega að hún hefur engu gleymt!

Páll Friðriksson í hlutverki Gísla var stórkostlegur! Greyið Gísli á nú ekkert endilega sjö dagana sæla í þessu verki, og vinnur Páll alveg ótrúlega skemmtilega með grátbroslegar aðstæður karaktersins. Oftar en einu sinni bókstaflega emjaði ég af hlátri yfir túlkun hans á Gísla og hefði eiginlega bara viljað sjá meira af honum blessuðum.

Senuþjófar verksins eru þrír- Eysteinn Ívar Guðbrandsson í hlutverki Kalla, Haukur Skúlason í hlutverki Þorbjörns (Tobba) og Ingi Sigþór Gunnarsson í hlutverki Gulla.

Eysteinn einfaldlega dregur að sér athyglina, svo einfalt er það! Hann er ofsalega sterkur leikari, flottur söngvari, og ofboðslega einlægur í túlkun sinni. Án þess að koma með „Spoilera“ þá var ákveðinn tímapunktur í leikritinu sem ég upplifði með honum vanlíðanina sem karakterinn hans var að ganga í gegnum. Leikari sem getur framkallað það sterkar tilfinningar í áhorfandanum er hæfileikaríkur!

Haukur Skúlason er senuþjófur af guðs náð og hefur alltaf verið það! Hann á ekki margar línur í leikritinu, en hann fangar alltaf athyglina. Hann virðist alltaf finna kómíska leið til að skapa smáatriði í karaktersköpun sinni sem gerir það að verkum að maður bíður eftir því að sjá hvað hann geri næst.

Ingi Sigþór Gunnarsson fékk það hlutverk að leika Gulla – besta vin Kalla sem Eysteinn Ívar leikur. Þar af leiðandi féll honum það hlutskipti í skaut að leika mikið einn á móti Eysteini, sem ekki margir myndu geta gert án þess að falla í skuggann af honum. En Ingi Sigþór stóð algjörlega í hárinu á Eysteini og gaf honum ekkert eftir og sannaði með því að hann er bara rétt að byrja að sýna okkur hversu góður leikari hann er.

Heilt á litið er leikritið Fylgd frábært verk!

Frábærlega skrifað leikrit með stórskemmtilegri persónusköpun og æðislegri tónlist, og uppfyllir allar þær kröfur sem lagðar eru fram þegar farið er á sæluvikustykki leikfélags Sauðárkróks. Ég skemmti mér stórkostlega, hljóp upp og niður allan tilfinningaskalann á meðan á leikritinu stóð, og get svo sannarlega lofað öllum sem fara á Fylgd góðri skemmtun.

Takk fyrir mig
Hrafnhildur Viðarsdóttir

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Gunnhildur Gísladóttir tók á æfingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir