Þolinmæði, útsjónarsemi og góður undirbúningur lykillinn að því að ná góðum myndum af fuglum

Örninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON
Örninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON

Ljósmyndir Blönduósingsins, Róberts Daníels Jónssonar, af hafarnarhreiðri hafa vakið verðskuldaða athygli en nú í vikunni fór hann með sérfræðingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands til að merkja og mynda hafarnarunga. „Ég átti stórkostlegan dag, VÁ hvað þetta var geggjað! Ég var að upplifa draum sem ég hef átt síðan ég var barn,“ segir Róbert á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má fjölda hreint frábærra mynda úr ferðinni. Feykir hafði samband við Robba Dan og forvitnaðist um galdurinn við að taka góðar fuglamyndir.

Áður en lengra er haldið er þó rétt að nefna að Róbert, sem er Bolvíkingur að uppruna, er alltaf með myndavélina á lofti og hefur ósjaldan bjargað Feyki um frábærar myndir. Hægt er að eyða löngum tíma á Facebook-síðu hans við að skoða listaverk náttúrunnar og þá ekki síst myndir af fuglum.

Hver er galdurinn við að taka góðar myndir af fuglum?„Það er fyrst og fremst þolinmæði, útsjónarsemi og góður undirbúningur. Í fuglamyndatöku skiptir gríðarlegu máli að vera með góða linsu og myndavél. Það skiptir máli að þekkja fuglategundirnar og hvernig þær lifa. Á hvaða tíma hvað er að gerast í þeirra lífi. Finna þeirra flugleiðir í ætisleit, hreiður og hvert þeir sækja æti. Allt skiptir þetta máli. Það skiptir einnig máli hvernig þú nálgast fugla og þá mest hvernig þú berð þig að. Mér finnst skipta máli að mynda dýr alltaf í sömu hæð og þau standa. Svo er alltaf gaman að geta sagt sögu með myndinni án þess að skrifa nokkuð við hana – það eru oft bestu myndirnar.“

Hvaða græjur ertu að nota við svona myndatökur?„Ég nota Nikon D850 Nikon D610 Full Frame myndavélar,“ segir Róbert en linsurnar sem hann notar jafnan við fuglamyndatökurnar eru Nikon AF-S NIKKOR 500mm f/5.6E PF ED VR og Nikon AF-S Nikkor 70-200mm f/2.8 VR2. Stundum notar hann Nikon AF-S NIKKOR 14-24mm f/2.8G ED.

Hvernig lærist það að vita hvar fuglinn heldur sig?„Það fer oftast mikill tími í það í hreinskilni sagt, fæ sjaldnast ábendingu en það kemur fyrir. Ég les mig til um fuglategundirnar og fylgist vel með þeim svo til að læra inn á þá. Þannig læri ég hvar þeir halda til, sem er auðvitað misjafnt eins og þeir eru margir.“

Róbert Daníel er algjörlega sjálflærður ljósmyndari en hefur notað internetið til þess að afla sér þekkingar.

Hvar pikkar maður upp lærdóm þegar kemur að svona flóknum myndatökum?„Oftast tek ég ákveðinn atriði fyrir í hvers sinn og eyði þá mörgum tímum í það og ber mig þá saman við þá bestu og reyni eftir bestu getu á að nálgast þá. Sem betur fer eru alltaf til fullt af betri ljósmyndurum sem hægt er að læra af.“

Hver er uppáhalds fuglamyndin þín og hvernig náðir þú henni?„Ég á svo margar uppáhalds fuglamyndir og upplifanir tengdar þeim að það er of langt mál að telja það upp. Get ekki með nokkru móti gert uppá milli þeirra satt best að segja. Hinsvegar er algjörlega mín uppáhalds ljósmyndaferð í fuglamyndatöku sú síðasta sem ég fór í að mynda tvö arnarhreiður, það stendur upp úr og gleymist seint. Ég stóð mig að því að horfa á ungana og gleyma að ég var að mynda, svo heillaður var ég af þessum fuglum.“

Robbi segir hafarnarmyndatökuna hafa tekið um fimm klukkutíma. „Dagurinn fer bara í þetta, að koma sér á staðinn og svona. Undirbúningur er bara eins og að fara í gönguferð, að vera undirbúinn fyrir Ísland.“ Hann segir nauðsynlegt að fara alltaf vel yfir myndavélabúnað, ganga úr skugga um að allt sé í lagi og tilbúið. „Vont að gleyma minniskorti heima eða klára rafhlöðuna,“ segir listamaðurinn að lokum.

- - - -
Róbert Daníel er með leyfi frá Umhverfisstofnun Íslands til að ljósmynda arnarhreiður.
Upplýsingar um haferni >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir