Uppselt var á Út við himinbláu sundin í gær

Helena Eyjólfs, Mjöll Hólm og Hugrún Sif í mikilli sveiflu. Mynd: PF
Helena Eyjólfs, Mjöll Hólm og Hugrún Sif í mikilli sveiflu. Mynd: PF

Fullt var út úr dyrum á Mælifelli á Sauðárkróki í gærkvöldi þegar „gömlu góðu söngkonurnar“ voru heiðraðar á tónleikunum Út við himinbláu sundin. Flutt voru þekkt lög sem eiga það sameiginlegt að konur gerðu þeim skil fyrr á árum eins og Svanhildur Jakobs, Erla Þorsteins, Erla Stefáns, Hallbjörg Bjarna, Adda Örnólfs, Soffía Karls, Helena Eyjólfs, Mjöll Hólm og fleiri.

Flytjendur kvöldsins fóru allir vel með sín atriði og stóðu fyllilega undir væntingum áhorfenda og settu þær Helena Eyjólfs og Mjöll Hólm punktinn yfir I-ið með nærveru sinni og söng. Með þeim sungu þær Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, Hreindís Ylfa Holm Garðarsdóttir og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir en kynnirinn, Valgerður Erlingsdóttir, opnaði söngskrána með því að syngja fyrsta lag kvöldsins. Hefði hún alveg sómt sér vel í sönghópnum með því að taka fleiri lög.

Hljómsveitin var skipuð þeim Rögnvaldi Valbergssyni, hljómborðs- og harmonikkuleikara, sem einnig sá um hljómsveitarstjórn, Sigurði Björnssyni, trommuleikara, Jóni Ólafi Sigurjónssyni, bassaleikara, Hugrúnu Sif Hallgrímsdóttur, flautuleikara og Sigfúsi Arnari Benediktssyni gítarleikara.

Skipulagningu annaðist Hulda Jónasdóttir og á hún hrós skilið fyrir að koma þessum viðburði á koppinn og leyfa Skagfirðingum og nærsveitamönnum að njóta. Aðrir tónleikar verða haldnir í kvöld í Hofi á Akureyri. Hægt er að kaupa miða á Tix.is 

Óhætt er að segja að stemningin hafi verið góð í salnum þar sem gömlu lögin hristu upp í áheyrendum sem margir hverjir sungu með, enda hvattir til að taka undir af söngvurum. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá gærkvöldinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir