„Þeir hafa alltaf náð að vinna vel saman“

Stefán Vagn. MYND AF FB
Stefán Vagn. MYND AF FB

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar með meiru, hefur haft í nógu að snúast síðasta árið. Hann er Króksari í húð og hár, fæddur 1972, yngstur þriggja systkina og alinn upp í Suðurgötunni, sonur Hrafnhildar Stefánsdóttur og Stefáns Guðmundssonar alþingismanns, eða bara Lillu Stebba og Stebba Dýllu eins og þau voru kölluð á Króknum. Knattspyrnuáhuginn var fyrirferðarmikill frá fyrstu tíð og Stefán Vagn fór vanalega um bæinn á sínum yngri árum með markmannshanskana á lofti – í Tindastólsgallanum að sjálfsögðu – og endaði sem aðalmarkvörður hjá Tindastóli.

Hann hefur starfað í lögreglunni linnulítið frá árinu 1997, bæði hér á Norðurlandi vestra og í Reykjavík og þar m.a. í Sérsveit ríkislögreglustjóra og hjá Greiningardeild ríkislögreglustjóra. Samhliða lögreglustarfinu starfaði hann hjá utanríkisráðuneytinu og fór til Afganistan sem friðargæsluliði 2006 til 2007. Hann tók við sem yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki 2008 og skellti sér í sveitar-stjórnarpólitíkina tveimur árum síðar og hefur frá þeim tíma leitt lista Framsóknar. Þar hefur hann farið mikinn og gegnt mörgum ábyrgðarstörfum fyrir sveitarfélagið. Stefán Vagn er giftur Hrafnhildi Guðjónsdóttur frá Siglufirði en þau eiga þrjú börn, tvær dætur og einn son.

Feykir sendi Stefáni nokkrar spurningar um áramótin, fyrst og fremst til að forvitnast um ár óveðra og heimsfaraldurs. Spurningarnar voru varla farnar til hans þegar allt leit út fyrir að hann stefndi á að berjast um annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. En skjótt skipast veður í lofti, eins og liðið ár hefur kennt okkur, og eftir að Ásmundur Einar Daðason ákvað að skipta um kjördæmi stefnir Stefán nú á efsta sæti listans. Það er því hægt að spyrja um ansi margt en Stefán Vagn hefur verið í framlín-unni hjá Almannavarnateymi Norðurlands vestra svo við hefjum leik þar.

Geturðu lýst þessu síðasta hamfaraári, frá því að óveðrið mikla skall á í desember 2019 og til dagsins í dag? „Þetta ár er búið að vera mjög sérstakt á svo marga vegu. Við hjá lögreglunni höfum verið með pappíra og áætlanir frá almannavörnum á borðinu allt árið. Árið byrjaði á svipuðum nótum og árið 2019 endaði, með hvelli, vonsku veðri með öllu því sem því fylgdi. Veturinn var einstakur að því leyti hvað veður var vont og ég man ekki eftir því að hafa eins oft þurft að virkja viðbragðsáætlanir vegna veðurs á einum vetri. Þegar veðrinu fór að slota fór Covid að rísa og má segja að það hafi tekið við í beinu framhaldi af veðurofsanum. Við fengum okkar eldskírn í Covid þegar hópsmit greindist á og við Hvammstanga og allt bæjarfélagið var sett í úr-vinnslusóttkví sem er því sem næst útgöngubann. Aldrei hefði manni dottið í hug að maður ætti eftir að taka slíkar ákvarðanir í þessu starfi hér. Aðgerða-stjórnstöð almannavarna á svæðinu var virkjuð í mars og við sem í henni erum færðum starfsstöð okkar í heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra þar sem við vorum fram á sumar og svo aftur í haust til áramóta þannig að það má segja að við höfum verið þar allt árið. Allur okkar tími frá mars 2020 hefur farið í Covid og í raun ekki séð fyrir endann á því verkefni þó svo sannarlega séum við farin að nálgast endapunktinn. Fyrir utan hópsmitið á Hvammstanga þá held ég að við getum með sanni sagt að Norðurland vestra hafa sloppið ótrúlega vel út úr þessu sem komið er en mjög fá smit hafa komið upp í Skagafirði og ekkert í Austur Húnavatnssýslu sem er með ólíkindum.“

Hvernig hefur þessi tími liðið? „Þessi tími hefur liðið hratt og hef ég oft haft það á orði að það sé eiginlega alltaf föstudagur svo hratt líða vikurnar. Vissulega hafa komið tímar sem hafa verið rólegri en aðrir en þegar reglugerðum frá heilbrigðisráðuneytinu er varðar sóttvarnaraðgerðir er breytt á um þriggja vikna fresti er eðli málsins samkvæmt mikið um fyrirspurnir frá fyrirtækjum og einstaklingum varðandi breytt fyrirkomulag. Við höfum litið á það sem mjög jákvætt að fá þessar fyrirspurnir, en það sýnir okkur hvað fólk á svæðinu var meðvitað um breytingar og staðráðið í því að fylgja reglum hverju sinni. Við höfum ekki fengið mikið af tilkynningu um brot á þessum reglum og ekki orðið vör við það í eftirlitsferðum lögreglu að þeim sé ekki fylgt. Fólk var mjög mikið að vanda sig sem er lykilinn að árangri. En því er hins vegar ekki að leyna að farið er að bera á þreytu hjá fólki vegna ástandsins og er það ekkert öðruvísi hjá okkur viðbragðsaðilum, það eru allir búnir að fá hundleið á þessu ástandi.“

Hver hafa verið helstu verkefnin tengd COVID-19 hér á Norðurlandi vestra? „Stóra verkefnið var hópsmitið á Hvammstanga og verkefni tengd því. Annars hafa þetta verið minni verkefni og að fylgjast með og upplýsa almenning um stöðu mála á hverjum tíma, eftirlit með sóttvarnarreglum og aðstoða almenning, fyrirtæki og sveitarfélög að aðlaga sig að reglugerðum og framkvæmd sóttvarna.“

Hvernig finnst þér íbúar hafa tæklað heimsfaraldurinn? „Ég er mjög stoltur af okkur hér á þessu svæði. Fólk hefur almennt staðið sig vel og verið að vanda sig mjög mikið er kemur að sóttvörnum og að fylgja þeim reglum sem settar hafa verið á hverjum tíma. Það að fá smit hafa verið lengst af í landshlutanum hefur virkað sem hvatning fyrir fólk að halda því þannig.“

Óvissan er alltaf erfiðust

Er þetta búið að vera mikið álag, náðirðu að komast eitthvað í frí í fyrra? Á köflum hefur þetta verið mikið álag og stundum mjög en það er sveiflukennt eins og faraldurinn og má segja að álagið sveiflist í takt við það. Ég hef verið svo lánsamur að vera með mikið af frábæru fólki með mér í þessu verkefni frá upphafi og er það lykilinn að því að þetta sé gerlegt. Ég náði fríi í sumar þegar allt var orðið veirulaust á landinu og fór þá hring um landið með fjölskyldunni sem var virkilega gaman. Reyndar endaði fríið upp úr verslunarmannahelgi, fyrr en áætlað var, þegar ég fékk símtal um að nú væru blikur á lofti varðandi Covid og líklega væri best að ég færi að koma mér heim. Eðli málsins samkvæmt hefur maður minna ferðast og sá frítími sem ég hef haft notaður heima við með fjölskyldunni. Í eðlilegu árferði fer ég um eina ferð í viku til Reykjavíkur en það var ekki þannig í fyrra svo tíminn heima var meiri en venjulega, sem var mjög notalegt verð ég að segja. Ég náði hins vegar aðeins að smíða, skipti um glugga og járn á þakinu ásamt einhverju smálegu. Það er mikil hvíld sem fylgir því fyrir mig að fara í smíðabuxurnar og hugsa um millimetra og sentimetra og fá að vinna með höndunum og fara líkamlega þreyttur að sofa.“

Hvað var erfiðast við óveðrin síðasta vetur? „Erfiðast í svona ástandi er alltaf óvissan, óvissan um hvað muni gerast og hvort verði tjón á fólki og munum. Þetta var mjög sérstakt að því leyti til að við vorum að upplifa rafmagnsleysi í svo langan tíma og skömmtun á rafmagni á tímabili ofan í veðrið. Fjar-skiptasamband var í ólagi sem gerði allt starf okkar miklu mun erfiðara en ella.

Þetta hefur breyst að einhverju leyti á svæðinu öllu til hins betra. Búið er að setja upp fleiri senda fyrir TETRA fjarskiptabúnað sem og að efla og verja betur þá sem fyrir voru á svæðinu. Sama má segja um GMS-senda og búnað tengda því. Víða er búið að styrkja raforkukerfið og stærsta framkvæmdin á svæðinu er lagning jarðstrengs frá Varmahlíð til Sauðárkróks sem eykur afhendingaröryggi til muna. Hins vegar er ljóst að mikið starf er óunnið í þessum efnum og verður það verkefni næstu ára.

Víða brustu sjóvarnir og nú þegar hefur verið hafist handa við lagfæringar á þeim og verður því verkefni framhaldið á þessu ári.“

Hvernig er að blanda saman lögregluþjóninum og sveitarstjórnarmanninum þegar svona ástand er í gangi? „Þeir hafa alltaf náð að vinna vel saman og það var engin breyting á því í þessu ástandi. Yfirlögregluþjónninn hefur alltaf verið í forgrunni og var það þarna. Það er að mínu mati kostur að þekkja vel sveitarfélagið, starfsemi þess, innviði og starfsfólk í svona aðstæðum. Einnig hefur þekking mín á sveitarfélögunum á svæðinu aukist verulega með störfum mínum sem sveitarstjórnarfulltrúi og fulltrúi í stjórn SSNV (Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra) þau tæpu ellefu ár sem ég hef verið í þessu. Það klárlega hjálpar til þegar uppi er neyðarástand líkt og skapaðist á síðasta ári.“

Hvernig hefur samstarfið gengið í sveitarstjórn? „Samstarfið í sveitarstjórn hefur gengið mjög vel, bæði innan meirihluta sem og við minnihluta. Auðvitað eru ekki allir sammála um allt, það er eðlilegt, en við höfum náð að vera samstíga í langflestum málum og svo verða menn að virða mismunandi skoðanir hvors annars í því sem út af stendur. Markmið allra er það sama, að vinna fyrir samfélagið okkar, um það eru allir sammála.“

Samtakamáttur samfélagsins gladdi

Hvaða verkefni eru framundan sem þér finnst vera hvað mest spennandi? „Það eru mörg mjög spennandi verkefni fram undan hjá sveitarfélaginu. Við erum að byggja leikskóla á Hofsósi og þar stefna menn á að halda áfram í uppbyggingu á íþróttahúsi sem og lagfæringu á grunnskólan-um í kjölfarið. Það er mín von að hönnun íþróttarhúss klárist á þessu ári og hægt verði að fara í framkvæmdir fljótlega eftir það. Breytingar í Varmahlíðarskóla er risa verkefni sem fer vonandi í gang fljótlega en nú er unnið að hönnun skólans þar sem unnið er út frá því að leik- og grunnskóli sé undir sama þaki. Í dreifbýlinu verður áfram unnið að hitaveituvæðingu og ljósleiðaratengingum en stærsta einstaka verkefnið þar verður borun nýrrar borholu í Reykjarhól. Gangi það vel verður það bylting fyrir okkur varðandi öflun á heitu vatni í Skagafirði.“

Stefán Vagn segir að á Sauðárkróki hafi verið hafist handa við jarðvegsvinnu við annan áfanga sundlaugar Sauðárkróks. „Það verður mjög gaman að fylgjast með því verkefni á næstu mánuðum en þegar þeim áfanga verður lokið, áfanga tvö, verðum við með stórglæsilegt mannvirki sem mun nýtast okkur og gestum okkar vel á komandi árum. Við höfum væntingar til þess að fara í hönnunarsamkeppni á nýju menningarhúsi á Sauðárkróki í tengslum við Safnahúsið okkar sem einnig verður spennandi að fylgjast með rísa á næstu árum. Framkvæmdir við Sauðárkrókshöfn eru einnig áformaðar en ljóst er að höfnin þarfnast verulegar stækkunar á næstu árum eigi hún að ná að anna þeim fjölda skipakoma sem ráð er fyrir gert og geta tekið á móti skemmtiferðaskipum sem hafa boðað koma sína hingað í sumar og næstu sumur. Það verður mjög spennandi viðbót við ferðamennsku í Skagafirði. Eins liggur fyrir að farið verður í nýja götu á Sauðárkróki, Nestún, á þessu ári en mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum hér. Framkvæmdir við gamla Barna-skólann við Freyjugötu eru vel á veg komnar sem og að stefnt er að því að framkvæmdir hefjist við byggingu um 20 íbúða við Freyjugötu (gamla bílaverkstæðisreitnum) í vor en þar er fyrirhugað að byggja á milli 60 og 80 íbúðir á næstu árum. Einnig er skipulagsvinna hafin að fjölgun lóða á Hofsósi og í Varmahlíð. Ótrúleg upp-bygging hefur átt sér stað síðustu ár á Sauðárkóki og í sveitum Skagafjarðar sem verður að líta á sem heilbrigðisvottorð um að hér sé gott að búa og fólk vilji festa rætur og setjast að.“

Höfðu aðstæður sem skapast hafa vegna heimsfaraldurs ein-hver áhrif á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins? „Það er ljóst að bæði ríki og sveitarfélög eru að taka á sig mikið högg vegna faraldursins og sveitarfélagið Skagafjörður er þar engin undantekning. Sveitarfélagið stendur hins vegar sterkt og er vel undir það búið að takast á við þetta verkefni fjárhagslega. Rekstrarniðurstaða ársins 2020 liggur ekki fyrir en ljóst að niðurstaðan mun bera þess merki. Mín tilfinning er sú að Sveitarfélagið Skagafjörður muni koma mun betur út úr þessu en mörg önnur sveitarfélög á landinu og munar þar um þær fjölmörgu sterku stoðir sem samfélag okkar byggir á.“

Það verður kosið til þings á komandi ári. Þú varst í þriðja sæti á lista Framsóknarflokks síðast en stefnir á fyrsta sætið núna. Hvers vegna stefnir hugurinn á Alþingi? „Ég er búinn að vera í sveitarstjórn síðan 2010 eða í að verða 11 ár og oddviti allan þann tíma í meirihluta sem hefur verið mjög skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Nú er tímapunkturinn fyrir mig að halda áfram og hef ég mikinn metnað fyrir því að nýta krafta mína fyrir allt kjördæmið á þeim vettvangi. Það er mikilvægt og ábyrgðarfullt verkefni að taka sæti á Alþingi og vera fulltrúi íbúa Norðvesturkjördæmis en áskoranirnar eru fjölmargar og verkefnin sem bíða ólík eins og hagsmunir svæðisins. Fyrir þeim þarf að berjast og ekkert kemur af sjálfu sér og mig langar að leggja krafta mína í það mikilvæga verkefni.“

Þú hefur aðeins komið við á þingi sem varamaður, hvernig lagðist það í þig og hvernig vinnustaður er Alþingi? „Alþingi er sérstakur vinnustaður, ólíkur öllum öðrum sem ég hef a.m.k. unnið á. Ég held að það sé samt með Alþingi sem vinnustað, eins og alla aðra, að það þarf tíma til að aðlagast og læra. Alþingi sem vinnustaður er ólíkur því sem birtist í fjölmiðlum að því leyti að samvinnan og samstarfið er miklu meiri en birtist í fréttum. Ég varð ekki var við annað þann tíma sem ég var þar inni en vinnuandinn væri góður og vinskapur á milli manna þvert á flokka og flokkslínur.“

Er eitthvað sem hefur komið þér þægilega á óvart á þessu ári eða eitthvað sem hefur glatt þig? „Það er alltaf eitthvað að gleðja mann, bæði litlir hlutir og stórir. Samtakamáttur samfélagsins kom mér ekki á óvart en hann gladdi mig mikið og gerði alla okkar vinnu miklum mun auð-veldari. Það gleður mann að fylgjast með börnunum sínum, fjölskyldu og vinum, takast á við þeirra verkefni og hef ég verið svo lánsamur að þrátt fyrir þetta hamfaraár hefur þeim vegnað vel. Það er ekki hægt að sleppa því að nefna þann frábæra árangur meistaraflokks kvenna í knattspyrnu að komast upp í efstu deild síðasta sumar en það gladdi mig verulega og verður mikil hvatning til ungs íþróttafólks um að allt sé mögulegt með æfingu, skipulagi og trú – trú á sjálfum sér og trú á verkefninu. Það verður mjög spennandi að fylgjast með þeim í sumar,“ segir Stefán Vagn að lokum.

- - - - - -

Viðtalið birtist áður í 4. tölublaði Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir