Einfaldar og þægilegar uppskriftir

Inga og Jón matgæðingar í tbl 36
Inga og Jón matgæðingar í tbl 36

Þau Inga Skagfjörð Helgadóttir og Jón Gunnar Helgason voru matgæðingar vikunnar í tbl 36 en þau búa á Sauðárkróki. Inga er fædd og uppalinn á Króknum og vinnur sem sjúkraliði á dvalarheimili HSN en Jón Gunnar er heimavinnandi húsfaðir og smiður. Þau eiga fjögur börn og þrjá unglinga og þá er gott að matreiða einfalda og þægilega rétti sem öllum á heimilinu þykja góðir. 

 

FORRÉTTUR

Ostabrauðstangir 

1 pizzadeig, (heimatilbúið eða keypt sem passar i skúffu)

200 g rifinn ostur

200 g rjómaostur með graslauk og lauk

4 msk. olía

3-4 hvítlauksgeirar

1/2 tsk. salt

1 tsk. oregano

Aðferð:

Ofninn hitaður í 200°C með blæstri. Pizzadeigið sett á ofnplötu.  Salt, oregano, olía og pressaður hvítlaukur sett í skál. Rjómaostinum smurt á helminginn af deiginu og rifnum osti dreift yfir. Brjótið deigið svo saman og skerið í lengjur og snúið upp á þær. Raðað í ofnskúffu. Brauðstangirnar penslaðar með hvítlauksolíunni og bakaðar í ofni í 8-10 mínútur.

AÐALRÉTTUR

Ofnbakaður fiskur með papriku og chilli

900 g þorskur

1 stk. rauð paprika

3 stk. hvítlauksgeirar

200 g rjómaostur með grillaðri papriku og chilli

500 ml rjómi.

Rifinn ostur

Salt og pipar

Ólifuolia

Aðferð:

Hitið ofninn i 180°C. Fisknum raðað i eldfast mót. Skerið papriku, rífið niður hvítlaukinn og steikið upp úr olíu þar til mýkist og bætið þá við rjóma og rjómaostinum. Hrærið þar til rjómaosturinn er bráðnaður. Sósunni hellt yfir fiskinn og rifinn ostur settur yfir. Setjið inn í ofn í um 30 mínútur.

Borið fram með hrísgrjónum, brauðstöngunum og salati.

EFTIRRÉTTUR

Oreo ostakaka með vanillubúðingi

1 Royal vanillubúðingur

240 ml mjólk

1 tsk. vanilludropar

300 ml rjómi

1 dós sýrður rjómi

125 g flórsykur 

2 pakkar Oreo kex

Aðferð:

Hellið vanillubúðingnum, mjólk og vanilludropum í skál og hrærið vel og setjið inn í ísskáp í 5-10 min. 

Flórsykri og sýrðum rjóma hrært saman í annarri skál. Rjóminn þeyttur og öllu blandað saman.

Myljið Oreo kexið og setjið helminginn í botninn á mótinu og hellið búðingnum yfir, stráið síðan restinni af kexinu yfir allt. Gott að láta standa í kæli í smá tíma áður en kakan er borin fram.

 

Þau skoruðu á Rögnu Fanney og Viktor Guðmunds að koma með gómsætar uppskriftir og voru þau matgæðingarnir í tbl 38.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir