George Michael er flottastur / RÓBERT ÓTTARS

Róbert lætur í sér heyra á tónlistarveislunni Árið er sem fram fór á Króknum vorið 2016.  MYND: PIB
Róbert lætur í sér heyra á tónlistarveislunni Árið er sem fram fór á Króknum vorið 2016. MYND: PIB

Stórbakarinn Róbert Óttarsson býr í Túnahverfinu á Sauðárkróki en kappinn er fæddur 1973 og ólst upp í Norðurbænum á Siglufirði. Róbert kann ekkert á hljóðfæri að eigin sögn. -„Frá því ég var krakki þá hefur mér fundist gaman að flauta (blístra) en svo syng ég mikið. Helstu afrekin á tónlistarsviðinu er útgáfan á Æskudraumum, disknum mínum, og svo útgáfutónleikarnir sem fylgdu í framhaldinu,“ segir Róbert.

Uppáhalds tónlistartímabil? -Finnst öll tónlist skemmtileg. Hef hlustað á margt gamalt og gott frá t.d. frá 1955-60 og svo er flest tónlist fram til þessa dags mjög góð, auðvitað misgóð.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Adele er alveg frábær og er hún í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Eins finnst mér Valdimar Guðmundsson alveg rosalega góður. En ég er núna að hlusta mikið á lög frá tímabilinu 1960-1965 vegna verkefnis sem ég er í. Mjög skemmtilegt, Elvis, Ingimar Eydal, Þorvaldur Halldórsson, Raggi Bjarna ofl. 

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? - Þegar ég var lítill var hlustað á Billy Joel, ELO, Steve Wonder, Björgvin Halldórs og eflaust eitthvað meira. Fyrstur í tækið núorðið er alltaf George Michael ef ég fæ að stjórna, hann er flottastur. En svo er ég nokkuð opinn fyrir flestri tónlist. Linda Þórdís dóttir mín er nú nokkuð farin að stjórna því hvað er verið að spila.

Hvað var fyrsta platan/disk-urinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Fyrsta platan var sennilega Lífsleiðin(n) með Sverri Stormsker. Fyrsti geisladiskurinn var Hananú með Villa Vill.

Hvaða græjur varstu þá með? -AIWA græjur sem ég keypti sjálfur og var mín fyrsta fjárfesting, mjög góð kaup, en þessar græjur á ég ennþá, en græjurnar fá bara vera í bilskúrnum, hátalarnir of stórir, lúkka ekki vel segir yfirvaldið.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? -Það er nú misjafnt. Oft er það nú bara eitthvað gaul. En þar fara líka stundum fram æfingar fyrir þau verkefni sem ég er með í.

Wham! eða Duran? -Wham alla daga enda héldu allir hinir uppá Duran og ég gat ekki hugsað mér að vera eins og þeir

Uppáhalds Júróvisjónlagið? -Sókrates, Hægt og hljótt… Nei nei fatta það núna, Geirmundur Valtýs hefur átt nokkur frábær júrólög, lag sem Stebbi Hilmars söng minnir mig, Látum sönginn hljóma. Besta lagið pottþétt

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Purple Rain með Prince og Þessi þungu högg með Sálinni, þ.e. ef ég er einn heima. Annars er það eitthvað léttara.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Þögn og svo í krökkunum. Mér liggur ekkert á að kveikja á tónlist á sunnudagsmorgnum, en ef ég verð að velja þá eitthvað gamalt og gott, bland í poka.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Adele/George Michael. Sama hvar þau væru að spila væri til í að skella mér á tónleika með þeim. Svo tæki ég auðvitað Selmu konuna mína með.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? -Hehe, nokkrir. Billy Joel, George Michael, svona til að nefna einhverja.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Lífsleiðin(n) með Sverrir Stormsker, hvet alla til að gefa henni tækifæri, ekkert bull og enginn dónaskapur á þeirri plötu. Flott tónlist, flottir textar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir