Góður matur fyrir göngugarpa II

Einfalt salat með melónu og hráskinku. Mynd af vef MS.
Einfalt salat með melónu og hráskinku. Mynd af vef MS.

Þessi þáttur birtist áður í 30. tbl. Feykis 2016 en Kristín S. Einarsdóttir, umsjónarmaður matarþáttar Feykis, var í miklu göngustuði þetta sumar og hér birtist annar þáttur hennar frá þeim tíma þar sem hún tók saman uppskriftir að góðum mat fyrir göngugarpa.
"Eins og ég gat um í matarþætti á dögunum eyði ég sumarfrísdögunum gjarnan í gönguferðum. Líkt og það er mikilvægt að velja staðgóðan morgunverð í slíkum ferðum er fátt notalegra en að snæða góðan kvöldverð að dagleið lokinni. Meðfylgjandi uppskriftir eru af góðum réttum sem bornir hafa verið á borð í slíkum ferðum, þar sem kokkurinn er ekki síður mikilvægur en leiðsögumaðurinn og gönguskórnir," sagði Kristín. 

Pestó pasta (af vefnum Ljúfmeti og lekkerheit)

pasta
gott grænt pestó
rauðlaukur, skorinn fínt niður
rauð paprika, skorin í bita
tómatar (e.t.v. kirsuberjatómata eða plómutómatar)
fetaostur
ferskur parmesan
gott jurtasalt eða venjulegt salt
pipar

Aðferð::
Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar það er tilbúið er vatninu hellt af og pastað sett aftur í pottinn. Hrærið pestói saman við ásamt fetaostinum (mér þykir gott að stappa hluta af ostinum með smá af olíunni), rauðlauknum, paprikunni og tómötunum. Piprið og saltið og rífið ferskan parmesan ost yfir. Berið fram með hvítlauksbrauði.

Einfalt salat með melónu og hráskinku  (af vefnum MS-Gott í matinn)

hráskinka
melóna, gjarnan vel þroskuð kantalópa
Mozzarella kúla
salatblöð að eigin vali
ólífuolía
sítróna
sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð:
Hráskinkan er vafin um kantalópusneiðar, gott blaðsalat sett í botninn á fati eða stórum diski. Mozzarella kúlan rifin yfir salatið. Kryddað með sjávarsalti og pipar, dálítilli ólífuolíu hellt yfir ásamt “dassi” af safa úr sítrónu. Að síðustu eru hráskinkuvafðar melónusneiðarnar lagðar yfir. 
Hlutföllin í salatinu eru algjört aukaatriði. Þið gerið bara eins mikið og ykkur finnst gott og þurfið fyrir þann fjölda af fólki sem þarf að metta. Sumir vilja líka meira eða minna af einhverju hráefni, það er nú það skemmtilega við svona salöt. Það er ekki hægt að eyðileggja neitt. Þetta ljúffenga salat hentar líka mjög vel sem forréttur.

Besta fiskisúpa í heimi (fyrir fjóra)

1 púrrulaukur
2 stórar gulrætur
1 græn paprika
1 tsk karrý
1 fiskteningur og 1 grænmetisteningur
rúmlega 1 l vatn
3 meðalstórar kartöflur
brokkólí
1 dós rjómaostur með kryddjurtum
1 piparostur
2-4 ýsuflök
rækjur

Aðferð:
Grænmetið skorið smátt og steikt í smjöri. Salt og annað krydd eftir smekk (til dæmis tarragon – ég set þó bara salt og pipar). Kartöflur (hráar) skornar í bita og settar út í súpuna. Látið sjóða í smástund. Góður brúskur af brokkolí settur út í og látið malla í fimm mínútur. Ostarnir látnir bráðna í súpunni, það þarf að gefa piparostinum dálítið góðan tíma. Ýsa skorin í strimla og sett í pottinn. Gott að hafa rækjur líka. Súpan tekin af hellunni og látin standa í 3-5 mínútur.

 

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir