Lambafille, grillað grænmeti og kartöflur

Matgæðingarnir Ragnheiður Rún og Ómar. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Ragnheiður Rún og Ómar. Mynd úr einkasafni.

„Við þökkum áskorunina frá Elísabetu og Hlyn og langar okkur að deila með ykkur uppskrift af grilluðu lambafille með fitu borið fram með piparostasósu, grilluðu grænmeti og bökuðum kartöflum,“ sögðu Ómar Eyjólfsson og Ragnheiður Rún Sveinbjörnsdóttir, en þau voru matgæðingar Feykis í 40. tbl. ársins 2016.

Aðalréttur

Lambafille (200 g á mann)
salt og pipar

Aðferð:
Skerið rendur í fituna og kryddið með salti og pipar. Grillið fyrst á fituhliðinni í u.þ.b. 6 mínútur og svo í u.þ.b. 3 mínútur á hinni hliðinni eða þar til kjötið nær því hitastigi sem hver óskar. Gott er að leyfa kjötinu að hvíla smástund áður en það er skorið. 

Piparostasósa

1 stk. piparostur frá MS
500 ml rjómi
kjötkraftur eftir smekk

Aðferð:
Setjið ostinn, rjómann og kjötkraftinn í pott og leyfið því að malla á meðan osturinn bráðnar. Okkur finnst best að rífa ostinn. Ef sósan er of þunn má þykkja hana með sósujafnara. 

Grillað grænmeti

Í þennan rétt má nota flest allt rótargrænmeti en okkur finnst best að nota spergilkál, blómkál, rauðlauk og gulrætur. Þetta er svo kryddað með salti og pipar og smá olíu dreift yfir. Grillað í wok-grillpönnu og galdurinn er að grilla grænmetið þannig að það sé aðeins farið að mýkjast en sé enn stökkt.

Með þessum réttum höfum við yfirleitt ferskt grænmeti og hrísgrjón. 

Eftirréttur
Draumur í Dalhúsum

Marens
4 eggjahvítur
1½ dl púðursykur
1 dl sykur
2 dl Rice crispies

Súkkulaðisósa

200 g Síríus súkkulaði
1 dl rjómi

Sett í pott þangað til súkkulaðið er bráðnað og svo kælt.

Rjómakrem

½ l rjómi
3 eggjarauður
5 msk flórsykur
5 msk koníak (má sleppa)

Aðferð:
Eggjarauður og flórsykur þeytt saman. Rjómi þeyttur sér. Öllu er svo hrært saman. Marensbotninn brotinn niður í fat , súkkulaðisósunni hellt yfir og svo er rjómakremið sett yfir. Kakan skreytt með ferskum ávöxtum, mikið af þeim. Gott að nota jarðaber, kiwi, vínber og bláber. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir