Nautakjöt beint frá bónda

Matgæðingurinn Ragnheiður og maður hennar Björn Helgi.
Matgæðingurinn Ragnheiður og maður hennar Björn Helgi.

„Mín gamla, góða vinkona Bidda (Elísabet Kjartansdóttir) skoraði á mig að vera matgæðingur í hinu ljómandi fína tímariti Feyki.  Ég gat ekki fyrir nokkurn mun skorast undan því og þakka henni kærlega fyrir að hafa haft þetta álit á mér og minni matseld. Það er alltaf skemmtilegt að þreifa sig áfram í eldhúsinu, þó frágangurinn sé ekki skemmtilegur að sama skapi.

Þar sem við hjónin vorum að fylgja úr hlaði nýrri heimasíðu með sölu á kjöti beint frá bónda um síðustu helgi, er auðvitað ekkert annað en nautakjöt sem verður fyrir valinu að þessu sinni og tefli hér fram einni af þeim uppskriftum sem finna má á síðunni okkar og er í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Læt líka fylgja með uppskrift af uppáhalds snittubrauðunum mínum. Það er alltaf gott að baka svolítinn slatta af þeim þegar andinn kemur yfir mann og eiga í frystinum til að grípa í. Í eftirrétt skellum við svo í stórkostlega bombu sem enginn verður svikinn af. Hún sómir sér alls staðar vel, hvort sem er í eftirrétt eða á kaffihlaðborðinu,“ sagði Ragnheiður Hlín Símonardóttir frá Ketu í Hegranesi, bóndi á Kálfafelli við Kirkjubæjarklaustur en hún var matgæðingur vikunnar í 3. tbl. Feykis 2017.

Tortillaréttur fyrir fjóra

(Ég er auðvitað aldrei að elda fyrir fjóra svo ég þarf alltaf að minnsta kosti að tvöfalda).

 • 500 g nautahakk (steikt og kryddað)
 • 100 g hrísgrjón (soðin)
 • 6 stk .tortillakökur
 • 200 g rjómaostur
 • mjólk
 • 1 rauðlaukur
 • 1 rauð paprika
 • gular baunir
 • ½ krukka guacamole
 • salsasósa
 • rifinn ostur

Aðferð:
Rjómaostur og mjólk er brætt saman í potti. Rauðlaukur, rauð paprika og gular baunir sett út í hakkið þegar búið er að steikja það og krydda að vild. Hrísgrjónin eru sett neðst í eldfast mót. Hakkblandan sett í tortillakökurnar, þeim rúllað upp og þær settar þétt upp að hvor annarri í eldfasta mótið. Þá er rjómablöndunni hellt yfir kökurnar og þar á eftir er guacamole og salsasósunni smurt yfir allt. Osturinn er svo settur yfir sósurnar. Hitað í ofni í u.þ.b. 25 mínútur við 200°C. Borið fram með salati að eigin vali og nýbökuðu snittubrauði.

Snittubrauð:

50 g brætt smjörlíki
5 dl mjólk
2 tsk salt
2 tsk sykur
50 g ger
900 g hveiti

Hnoðað saman og látið hefast í skálinni í 30 mínútur. Rúllað upp í þrjár lengjur og látið hefast aftur í 30 mínútur. Bakað neðst í ofni við 200 gráður í 30 mínútur.

Bomban:

5 dl rjómi
3 msk sykur
3 stk egg
½ marensbotn
1 stór poki Maltesers kúlur
ávextir að eigin vali

Aðferð:
Eggin eru aðskilin og eggjahvíturnar stífþeyttar. Þar næst eru eggjarauðurnar og sykurinn stífþeytt og svo er rjóminn þeyttur, allt er þetta gert í sitthvoru lagi og blandað síðan þeyttu saman. Brjótið Maltesers kúlurnar og marensbotninn  í hæfilega stærð og blandið saman við eggja-og rjómablönduna. Öllu hrært út í fallega skál eða eldfast mót og sett í frysti í a.m.k. 3 klst.

Tíu mínútum fyrir notkun er skálin tekin út úr frystinum og ávöxtum að vild, t.d. jarðarberjum, bláberjum, kíví og bönunum, raðað ofan á ,,ísinn“. Fyrir þá sem eru sjúkir í möndlur er gott að rista u.þ.b. hálfan poka af þeim og setja yfir ávextina. Það er þó alls ekki nauðsynlegt. Þetta er stórgóður eftirréttur sem svíkur engan.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir