Bjarni Haraldsson - Minning

FÆDDUR 14. MARS 1930 - LÁTINN 17. JANÚAR 2022

Það er með djúpri virðingu og þakklæti sem ég að leiðarlokum kveð tengdaföður minn Bjarna Haraldsson, kaupmann á Sauðárkróki.

Bjarni hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu frá því að ég kynntist honum Lárusi Inga. Örfáum árum áður höfðu Dísa tengdamamma, sem þá var orðin ekkja og Bjarni hafið búskap. Ástarsaga Dísu og Bjarna er um margt sérstök, þau kynnast ung, þekkjast í áratugi og sennilega hefur hann Bjarni beðið lengi eftir henni Dísu sinni. Afrakstur ástar þeirra er hann Lárus minn sem naut þess í raun að eiga tvo feður, dásamlega menn sem báðir reyndust honum vel.

Eftir að hafa verið tengdadóttir Bjarna, tengdadóttir Skagafjarðar í áratugi, hef ég lært að skilja að í firðinum fagra gilda mögulega aðeins önnur lögmál heldur en hér á flatlendinu Sunnanlands. Lífinu með sínum flókna margbreytileika er tekið fagnandi, lífsgleði og kærleikur hafður í hávegum, flókin fjölskyldumynstur þykja ekki í frásögur færandi, fyrir það er ástæða til að vera þakklát.

Verslun Haraldar Júlíussonar hefur verið í rekstri í hartnær 103 ár. Búðin var æskuheimili Bjarna en hann hefur aldrei búið annars staðar en á Aðalgötunni. Þar bjuggu hann og Dísa sér sameiginlegt, notalegt heimili. Óneitanlega tvinnaðist rekstur verslunarinnar þétt saman við einkalífið. Á skrifstofunni inn af búðinni hittust góðvinir Bjarna daglega, skröfuðu þar um daginn og veginn og þáðu kaffi af Dísu sem sjaldnast þó settist hjá þeim frammi. Oft var þar glatt á hjalla enda miklir snillingar sem þar hittust.

Í húsinu hefur tíminn staðið kyrr og þar finnur maður glöggt fyrir fortíðinni, dýrmætri sögu og minningum. Það var alltaf gaman að koma á Aðalgötuna. Hversu frábært er það líka að afi og amma búi svo að segja í verslun og að lítil afabörn geti hvenær sem er lætt hendi í lófa afa og rölt fram í búð og náð sér í gos og nammi. Þetta fannst afabörnunum skemmtilegast af öllu. Öll hafa börnin okkar notið þess að fá að heimsækja og dvelja hjá afa og ömmu um lengri eða skemmri tíma og munu þau án vafa búa að því til framtíðar. Þau hafa þannig, rétt eins og við öll, fengið að skyggnast inn í fortíðina og upplifa á eigin skinni tíðaranda sem nú, með brotthvarfi Bjarna, er horfinn.

Eftir því sem árin hafa liðið hef ég betur skilið þá sérstöðu sem Bjarni og verslunin nýtur. Allir þekkja búðina og kaupmanninn við Aðalgötuna. Um hann hafa verið samdar vísur, heimildamynd gerð, greinar skrifaðar og viðtöl tekin enda var Bjarni bæði uppátækjasamur og skemmtilegur. En í okkar augum var hann bara Bjarni afi. Síðar hefur okkur skilist að hann var meira en það. Hann var máttarstólpi og tákngervingur tíma sem er horfinn, þess vegna var hann þekktur. Þess vegna sóttist fólk eftir því að heimsækja hann í búðina. Það er mannlegt að sakna þess sem var og sækja í að upplifa aftur þá tíma sem við munum úr bernsku. Það gátum við öll upplifað í versluninni hans Bjarna afa á Króknum.

Bjarni og Dísa komu oft hingað til okkar í Hveragerði. Yfirleitt hafði Bjarni ekki setið lengi þegar hann hafði boðið karlpeningnum út að rúnta og ekki brást hvert var farið. Bílasölurnar á Selfossi voru eins og segulstál á Bjarna en eins og allir vita var hann afar áhugasamur um bíla og fram á síðasta dag ræddi hann um bílakaup.

Nú er Bjarni afi farinn í Sumarlandið. Ég efast ekki um að þar hefur beðið hans glæsivagn, ábyggilega Chevrolet Malibu. Nú keyrir hann þar um greiða vegi, aðeins of hratt, með sixpensarann og glettnissvip í auga. Hann bíður þar enn og aftur eftir henni Dísu sinni sem nú lifir eiginmann sinn. Við sem eftir sitjum syrgjum góðan mann en minningin mun lifa með þeim sem hann elskaði mest eiginkonu, börnum, barnabörnum og langafastrákunum sex.

Aldís Hafsteinsdóttir

-----------------------------------------------------------------------

Elsku pabbi, það er komið að kveðjustund. Góðar minningar streyma fram þegar ég hugsa til baka. Minningar um góðan tíma á Sauðárkróki, þegar við systur vorum litlar og vorum að koma norður á sumrin til þín, ömmu og afa. Það voru forréttindi að fá að hlaupa um í fjörunni og hanga á gömlu bryggjunni. Þú varst góður pabbi og vinur. Það var líka alltaf ljúft að renna inn á Krókinn núna síðari árin og dvelja hjá ykkur Dísu á Baldri, í þessu gamla húsi með góða sál. Þú varst einstakur maður, vinur vina þinna og sérlega bóngóður. Það kom enginn að tómum kofanum hjá þér og var það þér ljúft að rétta hjálparhönd ef þú gast. Barngóður varst þú með eindæmum og leituðu börn í að koma til þín, fundu hlýjuna sem streymdi frá þér. Það verður tómlegt að koma á Krókinn og enginn Bjarni Har í búðinni.

Elsku pabbi, það var erfitt fyrir þig þegar þú veiktist í desember 2020 og heilsa þín fór að gefa sig. Þú náðir þér aldrei en áttir góða daga inn á milli. Nú ert þú sofnaður svefninum langa, saddur lífdaga.

Pabbi minn, það voru forréttindi að fá að vera dóttir þín og á ég eftir að sakna þín mikið. Hvíl í friði elsku pabbi og góða ferð. Mig langar að þakka starfsfólki hjúkrunardeilda HSN fyrir hlýju og frábæra umönnun um pabba minn.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða
svo fallegur, einlægur og hlýr
en örlög þín ráðin - mig setur hljóða
við hittumst ei aftur á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma
gæta að sorgmæddum, græða djúp sár
þó kominn sért yfir í aðra heima
mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ókunnur).

Þín dóttir Helga

-----------------------------------------------------------------------

Guð gefi mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til þess að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

R.N.

Mér finnst við hæfi að kveðja þig með fallegu bæninni okkar, elsku pabbi minn. Á sama tíma og það er svo sárt að missa þig, er gott til þess að vita að þú hafir fengið hvíld eftir ströng veikindi síðastliðið ár. Ár sem var þér ansi erfitt, því allt í einu varst þú rifinn burtu úr þínu daglega umhverfi, heimilinu og búðinni þinni sem var þér svo mikils virði og sem þú og afi Haraldur rákuð í næstum 103 ár. Já menn hætta ekkert að vinna þó þeir séu komnir á tíræðisaldurinn.

Að ætla að lýsa þér í örfáum orðum er næstum ekki hægt en vinnusemi þín, greiðvikni og hjálpsemi koma m.a. upp í hugann. Þeir sem áttu í einhverjum erfiðleikum, áttu hauk í horni þegar þú varst annars vegar. Að þessu leyti líktist þú yndislegu afa og ömmu, foreldrum þínum. Einnig hjálpaðir þú ansi mörgum sem höfðu átt í vandræðum með áfengi. Þú varst með réttu verkfærin til þess, enda hafðir þú sjálfur unnið þá baráttu fyrir tæplega 38 árum. Mikið var ég stolt af þér þá, eins og svo oft fyrr og síðar.

Þú varst skemmtilegur og stríðinn og elskaðir að vera innan um annað fólk. Ekki má nú gleyma aðal áhugamálinu, sem voru bílar og aftur bílar. Þú varst með algjöra bíladellu! Stundum hringdir þú í mig til Danmerkur til að heyra hvort það væri ekki einhver bílasala í nágrenninu sem ég gæti kíkt á fyrir þig. Skildir svo ekkert í því að dóttirin skyldi vera frekar treg til að uppfylla óskina. Þú varst ánægðastur í firðinum fagra, enda Skagfirðingur í húð og hár og það var alltaf svo gaman að koma á Krókinn til ykkar. En mér tókst nú samt að fá þig og Dísu þína í heimsókn nokkrum sinnum á meðan þið höfðu heilsu til. Það voru góðir tímar og dýrmætir og gott að geta sýnt ykkur Danmörku. Reyndar skildu þið Poul ekki hvorn annan en það skipti engu máli, þið hlóguð og höfðuð það gott saman.

Elsku pabbi þú snertir hjörtu svo ótal margra í gegnum tíðina, það sést m.a. á þeim fjölmörgu fallegu kveðjum sem okkur fjölskyldunni hafa borist síðan þú kvaddir og sem hafa yljað okkur á þessum erfiða tíma. Mikið er ég þakklát fyrir að hafa getað heimsótt þig oftar enn ella síðasta árið þitt á lífi. Mig langar til að þakka elsku starfsfólki hjúkrunardeildar HSN fyrir alveg einstaka umönnun og elsku í garð pabba. Það var okkur börnunum ómetanlegt. Elsku pabbi, ég kveð þig með söknuði og þakka þér fyrir allt og allt sem þú varst mér. Sofðu rótt og hver veit nema við hittumst fyrir hinum megin.

Húmar að kveldi, hljóðnar dagsins ys,
hnígur að ægi gullið röðulblys.
Vanga minn strýkur blærinn blíðri hönd,
og báran kveður vögguljóð við fjarðarströnd.

Ég er þreyttur, ég er þreyttur,
og ég þrái svefnsins fró.
Kom, draumanótt, með fangið fullt af friði og ró.

Jón frá Ljárskógum

Þín dóttir Guðrún Ingibjörg

Hér er hægt að horfa á útförina sem streymt var frá Sauðárkrókskirkju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir