Rabb-a-babb 136: María Gréta

Nafn: María Gréta Ólafsdóttir.
Árgangur: 1956.
Fjölskylduhagir: Gift Viðari Sverrissyni við eigum tvær dætur Margréti og Hrafnhildi Viðarsdætur, Viðar átti tvo syni áður þá Sigurð Svavar og Stein Þorkel, við eigum sjö  barnabörn og það áttunda á leiðinni.
Búseta: Neðri Ás 3 í Hjaltadal - Afahús.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Dóttir Ólafs Ólafssonar járnsmiðs og Dagbjartar Guðjónsdóttur þau eru bæði látin, ég fæddist og ólst upp í Hafnarfirði ég er Gaflari í húð og hár.
Starf / nám: Ég starfa á Fjármálasviði Háskólans á Hólum og er gjaldkeri skólans./ Ég er með gamla verslunarprófið.
Hvað er í deiglunni: Það helsta er að við stefnum á að flytja á Krókinn aftur eftir 16 ár í Hjaltadal og þurfum því að selja húsið okkar í sveitinni, með nokkurri eftirsjá reyndar.

Hvernig nemandi varstu?  Ég var afburða nemandi en helst til mikið í félagsstörfum í skólanum, leiklist ofl. sem tók tíma frá náminu, náði því þó að vera með hæstu einkunn yfir skólann í þriðja bekk í Flensborg (sem nú er 10.bekkur).  Fór ekki í langskólanám þó það hefði getað orðið mér létt.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Það var sól og blíða í Hafnarfirði þennan dag 12.apríl 1970. Hárgreiðslan á mér var alger hörmung, ég var eins og lítil kona en ekki fermingarbarn, tveir frændur mínir sem fermdust sama dag og veislan okkar var sameiginleg litu út eins og þeir væru synir mínir en ekki jafnaldrar.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Leikkona var draumurinn þegar ég var lítil, en sviðsstjórn heillaði mig þegar ég fór að eldast.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég fékk eldgamalt risastórt svart Herkúles hjól þegar ég var 8 eða 9 ára. Stýrið á hjólinu náði mér í axlir og hjólin á því voru risastór og mjó. Ég hjólaði á þessu um allan bæ en náði aldrei þeirri hæð að geta hjólað sitjandi án þess að nota sérstaka tækni á pedalana til að snúa þeim. Ég lenti bara einu sinni í slysi á hjólinu, en ég átti þó hjólið í nokkur ár.

Besti ilmurinn? Það jafnast ekkert á við ilminn af blómunum á sírenutrénu þegar þau eru að opnast.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið?  Paul McCartney and the Wings, Elton John, John Denver, James Taylor, Jhonny Cash, The Carpenters  ofl.ofl.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? These Boots Are Made For Walking með Nancy Sinatra eða eitthvað með The Carpenters.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Sjúkrahúsaþáttum, matreiðsluþáttum og svo breskum og sænskum leynilögregluþáttum.

Besta bíómyndin? Sound of Music með sína dásamlegu tónlist og Forrest Gump af því að hún er mannleg og yndisleg.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Guðjóni Vali Sigurðssyni, en Hannes Halldórsson kemur fast á hæla honum.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? 
Ég sé um þvottinn.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Svínarifin með leiðbeiningum frá Tennesy í gegnum hana Möggu vinkonu mína, annars lambakjötið ég er eiginlega besti vinur sauðfjárbóndans.

Hættulegasta helgarnammið? Ís eða gott rauðvín.

Hvernig er eggið best? Spælt öðrum megin og rauðan lin “sunny side up”.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég þarf svo langan tíma til að koma mér í háttinn, sé alltaf eitthvað sem ég á eftir að gera.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Tillitsleysi, mikilmennska og merkilegheit, þetta fer yfirleitt saman.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? “Den tid, den sorg” eins og Danir segja. 


Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég var á þriðja ári og sat úti í rólu, þá hljóp stór rotta yfir lóðina og ég trylltist.  Allar konurnar í hverfinu komu hlaupandi til að vita hvað hefði komið fyrir barnið. Ég er enn alveg brjálæðislega hrædd við öll nagdýr, og mest er ég hrædd við þau dauð því þá hlaupa þau ekki frá mér.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Íkorninn í Ísaldarmyndunum hann er einfaldlega snillingur, hins vegar þoli ég ekki Bugs Bunny því hann er svo falskur og undirförull.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Er hægt að svara þessu??? Ég held að Dorrit Moussaieff lifi frekar áhyggjulausu lífi og það er öfundsvert.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Heimanfylgja eftir Steinunni Jóhannesdóttur er svakalega góð bók og hún er snilldar höfundur. Núna er ég að lesa Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi og líkar vel.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið?  Þetta snýst ekki um húsrými heldur hjartarými.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati?  Rosa Parks, þeir sem ekki þekkja þetta nafn ættu að kynna sér það, þetta var ein merkilegasta kona allra tíma.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu (og af hverju)? Ég færi í vinnuna mína í Búnaðarbankanum á Sauðárkróki, það var góður vinnustaður og þar voru dásamlegir vinnufélagar.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Maður veit aldrei.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... sennilega ekki með.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Zippo kveikjara, bensín á kveikjarann og vatnstank (fullan).

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: 1. Fara í Hvalaskoðun frá Húsavík. 2. Flytja á Sauðárkrók 3. Eyða helgi í bústað með æskuvinkonunum Þrúðu og Þurý og eiginmönnum okkar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir